Innlent

Sýknaður af á­kæru um að verða hjónum að bana

Jón Þór Stefánsson skrifar
Alfreð Erling Þórðarson hefur verið sýknaður, en verður vistaður á öryggisgæslu.
Alfreð Erling Þórðarson hefur verið sýknaður, en verður vistaður á öryggisgæslu. vísir/Vilhelm

Héraðsdómur Austurlands hefur sýknað Alfreð Erling Þórðarson, 46 ára Norðfirðing, af ákæru um manndráp vegna ósakhæfis. Honum var gefið að sök að verða eldri hjónum að bana í Neskaupstað í ágúst í fyrra.

Honum er þó gert að sæta öryggisgæslu á viðeigandi stofnun, og greiða fjórum aðstandendum hjónanna bætur, um 31 milljón króna.

Þetta er niðurstaða Héraðsdóms Austurlands.

Alferð var ákærður fyrir að ráða hjónunum bana með því að ráðast á þau á heimili þeirra með hamri. Hann hafi slegið þau oft með hamrinum, einkum í höfuð, með þeim afleiðingum að þau hlutu umfangsmikla áverka sem urðu þeim að bana.

Í dómi Héraðsdóms Austurlands segir að gögn málsins hafi sýnt fram á að enginn annar en Alferð Erling hafi getað verið að verki í umrætt sinn. Lögfull sönnun væri komin fram um að hann hefði veist að þeim með þeim hætti sem lýst væri í ákæru.

Hins vegar segi í hegningarlögum að ekki eigi að refsa mönnum vegna geðveiki, andlegs vanþroska eða annars samsvarandi ástands hafi þeir verið alls ófærir um að stjórna gjörðum sínum. Ekki sé endilega nóg að hinn ákærði hafi verið með „brenglað raunveruleikaskyn“ eða haldinn ranghugmyndum vegna geðsjúkdóms.

Alfreð hafi í raun aldrei lýst ásetningi eða illvilja í garð hjónanna. Raunar hafi ekkert bent í þá átt. Engin skynsamleg svör útskýri afhverju hann hafi hrint þessari atburðarás af stað. Alferð viti að það sé rangt að deyða og meiða fólk.

Matsmaður, sem gaf skýrslu fyrir dómi, hafi ekki séð neina aðra túlkun mögulega en að hann hafi verið alls ófær um að stjórna gjörðum sínum á verknaðarstundu. Dómurinn vísaði til þessa mats í niðurstöðu sinni og sagði að hann hefði verið á valdi ranghugmynda og mikilla hugsanatruflana á verknaðarstundu.

Alfreð hafi ekki skipulagt verknaðinn. Hann hafi heldur ekki borið skynbragð á eðli afbrotsins. Hann var því metinn ósakhæfur og því sýknaður af kröfum ákæruvaldsins.


Tengdar fréttir

Kveðst hafa komið að hjónunum látnum

Alfreð Erling Þórðarson, 46 ára Norðfirðingur, sem er grunaður um að hafa orðið eldri hjónum að bana í Neskaupstað í fyrra, neitar sök og segist hafa komið að hjónunum látnum. Hann vill meina að „vísindamennirnir“ sem og Guð og djöfullinn séu ábyrgir.

Fékk að borða hjá hjónunum þegar hann var svangur

Mágur Alfreðs Erlings Þórðarsonar, sem grunaður er um að hafa banað hjónum í Neskaupstað í fyrrasumar, segir Alfreð stundum hafa komið við hjá hjónunum og fengið hjá þeim kaffi eða að borða á kvöldin þegar hann var svangur. Hann grunaði Alfreð strax um græsku þegar hann sá hvað hafði gerst.

Sagðist á leið í Hallgrímskirkju fyrir guð eða djöfulinn

Lögregluþjónn sem kom að handtöku Alfreðs Erlings Þórðarsonar á Snorrabraut í ágúst í fyrra segir Alfreð hafa verið mjög rólegan, samvinnuþýðan og rætt um dauðann, djöfulinn og guð. Upptökurnar eru til á búkmyndavél lögreglumannsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×