Veður

Mild sunnan­átt og dá­lítil væta

Atli Ísleifsson skrifar
Hiti verður á bilinu þrjú til tíu stig að deginum.
Hiti verður á bilinu þrjú til tíu stig að deginum. Vísir/Vilhelm

Hæð yfir Skotlandi dælir mildri sunnanátt til landsins í dag, með strekkings vindi norðvestantil en heldur hægari annars staðar.

Á vef Veðurstofunnar segir að það verði dálítil væta sunnan- og vestanlands líkt og verið hefur síðustu daga, en léttskýjað á Norðaustur- og Austurlandi.

Hiti verður á bilinu þrjú til tíu stig að deginum.

„Suðvestan gola eða kaldi á morgun. Allvíða skúrir og jafnvel slydda um tíma við norðausturströndina, en yfirleitt þurrt austanlands.

Á miðvikudag er síðan útlit fyrir suðaustan golu eða kalda með stöku skúrum um landið sunnan- og vestanvert,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.

Spákort fyrir klukkan 14.Veðurstofan

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á þriðjudag: Suðlæg eða breytileg átt 3-10 m/s. Bjartviðri suðaustanlands, en víða smá væta annars staðar og líkur á dálítilli slyddu eða snjókomu við norðurströndina. Hiti 0 til 8 stig, en frystir norðaustanlands seinnipartinn.

Á miðvikudag: Suðaustan 5-13 og dálitlar skúrir, en yfirleitt þurrt á Norður- og Austurlandi. Hiti 2 til 8 stig.

Á fimmtudag (vorjafndægur) og föstudag: Sunnanátt og rigning með köflum, en úrkomulítið norðaustanlands. Hiti 3 til 10 stig.

Á laugardag: Vestlæg átt og bjartviðri á austanverðu landinu, annars dálítil él. Kólnar í bili.

Á sunnudag: Útlit fyrir sunnanátt með rigningu eða slyddu, fyrst vestantil.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×