Erlent

Ó­líkar meiningar um vald­svið Trump og dóm­stóla

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Mennirnir eru nú í haldi í fangelsi fyrir hryðjuverkamenn í El Salvador.
Mennirnir eru nú í haldi í fangelsi fyrir hryðjuverkamenn í El Salvador. AP/Forsetaskrifstofa El Salvador

Áhyggjur manna af árekstrum milli Donald Trump Bandaríkjaforseta og dómstóla virðast vera að raungerast en Karoline Leavitt, fjölmiðlafulltrúi Trump, sagði í yfirlýsingu í gær að dómstólar hefðu ekki vald til að skipta sér af aðgerðum forsetans í utanríkismálum.

Þá sagði hún Trump í fullum rétti að reka „erlenda óvini“ úr landi.

Tilefni ummælanna er umfjöllun um brottflutning hundruða ólöglegra innflytjenda til El Salvador, sem dómari hafði dæmt ólögmætan. Fyrirskipaði hann að snúa ætti fólkinu við, ef það væri farið úr landi.

„Einn dómari í einni borg getur ekki stjórnað ferðum flugmóðurskips með erlenda hryðjuverkamenn innanborðs sem hefur verið vísað frá Bandaríkjunum,“ sagði Leavitt. Ekki er vitað hvers vegna hún talar um flugmóðurskip þar sem allt bendir til þess að mönnunum hafi verið flogið úr landi.

Trump gaf út forsetatilskipun á föstudag um handtöku og brottvísun meintra meðlima Tren de Aragua gengisins og réttlæti aðgerðina með því að vísa til laga frá 1798, sem heimila brottflutning fólks frá ríkjum sem eru í stríði við Bandaríkin.

Lögunum hefur verið beitt þrisvar sinnum, árið 1812 og í báðum heimstyrjöldunum, þá helst gegn Bandaríkjamönnum af japönskum uppruna.

Dómarinn James E. Boasberg í Washington sagði alríkislög hins vegar ekki heimila aðgerðir forsetans. 

Ekki hefur fengist staðfest hvenær vélarnar lentu í El Salvador og því ómögulegt að slá því föstu hvort stjórnvöld brutu gegn fyrirmælum dómarans um að snúa þeim við. Leavitt staðfesti hins vegar að fólkið hefði verið komið út úr Bandaríkjunum þegar dómarinn gaf fyrirmælin.

Forseti El Salvador, Nayib Bukele, hefur birt myndskeið þar sem menn eru leiddir úr flugvél og í fangelsi. Þá sést þegar höfuð þeirra eru rökuð. 

Stjórnvöld í El Salvador hafa samþykkt að taka á móti og hýsa gengjameðlimi sem Bandaríkjamenn vilja losna við, gegn greiðslu.

New York Times fjallar ítarlega um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×