Veður

Suð­vestan­átt með skúrum víða um land

Atli Ísleifsson skrifar
Veðurstofan spáir fremur mildu veðri í dag.
Veðurstofan spáir fremur mildu veðri í dag. Vísir/Vilhelm

Yfir landinu er nú dálítill hæðarhryggur, en minnkandi smálægð á Grænlandshafi, sem valda suðvestanátt með skúrum víða um land í dag, éljum til fjalla, en þurrviðri á Norður- og Austurlandi.

Á vef Veðurstofunnar segir að það lægi heldur þegar líður á daginn og að verði fremur milt í veðri. Hiti verður á bilinu tvö til níu stig og hlýjast austast.

„Langt suður í hafi er þó vaxandi lægð, sem nálgast landið og eftir miðnætti snýst í suðaustankalda með rigningu, en sums staðar slyddu eða snjókomu fyrir norðan.

Á morgun gengur lægðin síðan þvert yfir landið, en snýst þá í stífa austan- og norðaustanátt með slyddu eða rigningu fyrir norðan og síðar snjókomu, en mun hægari sunnanátt með vætu syðra.

Annað kvöld er lægðin komin austur af landinu, en hvessir þá með hríðarveðri á Vestfjörðum og við norðurströndina, en snýst í vestanstrekking allra syðst. Veður fer smám saman kólnandi,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.

Spákort fyrir klukkan 14 í dag. Veðurstofan

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á miðvikudag: Gengur í austan og norðaustan 13-20 m/s með snjókomu eða slyddu norðantil og hita 0 til 5 stig, en suðlæg átt, 8-15 og rigning með köflum S- og V-lands með hita 2 til 7 stig. Snýst í suðvestan 13-18 syðst á landinu um kvöldið og hvessir heldur á Vestfjörðum.

Á fimmtudag: Norðaustan 10-18 m/s, hvassast á Vestfjörðum, en mun hægari sunnan heiða. Víða snjókoma með köflum og vægt frost, en skúrir eða él sunnantil með hita 0 til 6 stig.

Á föstudag: Norðlæg átt, 5-13 m/s, en austlægari syðst. Allvíða él og frost 0 til 8 stig, minnst syðst.

Á laugardag: Norðaustlæg eða breytileg átt og él við suðurströndina, en annars úrkomulítið. Áfram svalt í veðri.

Á sunnudag: Útlit fyrir að gangi í hvassa suðaustátt með slyddu, en síðan rigningu sunnan- og vestantil og hlýnar í veðri.

Á mánudag: Líklega suðvestlæg átt og vætusamt, en úrkomulítið eystra og milt veður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×