Innlent

Ung­menni kýldi lög­reglu­mann við eftir­lit og beit annan

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Lögregla hafði í ýmsu að snúast í gærkvöldi og nótt.
Lögregla hafði í ýmsu að snúast í gærkvöldi og nótt. Vísir/Vilhelm

Ungmenni í Reykjavík kýldi lögreglumann í síðuna og beit annan við eftirlit lögreglu með hópamyndun við verslunarkjarna í umdæminu Breiðholt/Kópavogur í gærkvöldi eða nótt.

Viðkomandi hafði sig mest í frammi, að því er fram kemur í yfirliti lögreglu yfir verkefnin á vaktinni, og gekk öskrandi að lögreglu en var ýtt frá. Ungmennið brást við með því að kýla lögreglumanninn og beit svo annan lögreglumann þegar hann hugðist handjárna viðkomandi.

Ungmennið reyndist með fíkniefni í fórum sínum.

Í sama umdæmi barst tilkynning um ungmenni „með ónæði“ í sjoppu en þau voru farin þegar lögregla kom á vettvang. Þá var einn vistaður í fangageymslu vegna óspekta en sá neitaði að segja til nafns.

Lögregla hafði afskipti af nokkrum ökumönnum, meðal annars einum sem hafði verið að spóla í hringi á bílastæði við verslun. 

Dekk virðist hafa sprungið undir bifreiðinni, sem endaði á vegriði. Bifreiðin var óökufær en ökumaður og aðrir óslasaðir. Ökumaðurinn reyndist 17 ára gamall og því haft samband við foreldra hans.

Lögregla var einnig kölluð til vegna farþega sem gat ekki greitt fyrir leigubíl en farþeginn sakaði ökumanninn um líkamsárás. Þá var ölvuðum mönnum vísað út af safni í miðborginni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×