Erlent

Biður til Guðs að Banda­ríkin gefi ekki eftir

Auðun Georg Ólafsson skrifar
Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu, ákallar æðri máttarvöld svo Bandaríkin gefi ekki allt of mikið eftir í viðræðum við Rússland.
Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu, ákallar æðri máttarvöld svo Bandaríkin gefi ekki allt of mikið eftir í viðræðum við Rússland. EPA

Stjórnvöld í Moskvu hafa sagt að vopnahléið á Svartahafi sem tilkynnt var á þriðjudag myndi aðeins hefjast þegar vestrænum hömlum á flutningi matvæla og áburðar frá Rússland hefði verið aflétt auk annarra skilyrða. Vólodímír Selenskí, forseti Úkraínu, ákallaði æðri máttarvöld í morgun og vonaði að Bandaríkin létu ekki undan þrýstingi Rússlands.

Selenskí ræddi við hóp evrópskra fréttamanna í aðdraganda leiðtogafundar bandalags viljugra ríkja til stuðnings Úkraínu sem hefst í París í dag. Viðtalið var birt á BBC. Þar sagðist hann vonast til að Bandaríkin stæðu styrkum fótum og létu ekki undan þrýstingi Rússlands um margskonar skilyrði gegn vopnahléi sem næði til flutninga á Svartahafi. Hann vonaði að Bandaríkin stæðu fast á sínu og bað til Guðs um að það gengi eftir.

„Ef Bandaríkin standa styrkum fótum og gagnvart skilyrðum Rússlands þá stöndum við og verjum okkar land. Við höfum sýnt seiglu okkar. Nú er mjög mikilvægt að bandamenn okkar sýni einnig styrk sinn og seiglu,“ sagði Selenskí sem var þá spurður hvort Bandaríkin munu gera það. „Ég vona það. Ef Guð lofar, þá gera þeir það.“

Leiðtogafundur í París

Á leiðtogafundi bandalags viljugra ríkja, tæplega þrjátíu Evrópuríkja auk Kanada og Tyrklands sem hefst í dag, er tilgangurinn að ræða leiðir til að styrkja öryggi Úkraínu. Kristrún Frostadóttir, forsætisráðherra, situr fundinn fyrir hönd Íslands. Ræða á leiðir hvernig þétta megi bandalagið og frekari öryggisráðstafanir fyrir Úkraínu ef Bandaríkin semja beint við Rússland um vopnahlé eða frið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×