Erlent

Á­höfn kaf­bátsins sem sökk í Rauða­hafi yfir­heyrð

Kjartan Kjartansson skrifar
Bátar sjást leita að fólki úr kafbátnum Sindbad sem sökk nærri Hurghada í Egyptalandi í gær.
Bátar sjást leita að fólki úr kafbátnum Sindbad sem sökk nærri Hurghada í Egyptalandi í gær. AP

Egypsk yfirvöld yfirheyrðu áhöfn ferðamannakafbáts sem sökk í Rauðahafi í gær. Enn liggur ekki fyrir hvað olli slysinu sem kostaði sex rússneska ferðamenn lífið, þar á meðal tvö börn. Fjórir eru sagðir þungt haldnir eftir slysið.

Kafbáturinn Sindbad var í útsýnisferð um kóralrif um kílómetra undan strönd ferðamannabæjarins Hurghada í Egyptalandi þegar honum hlekktist á í gærmorgun. Viðbragðsaðilum tókst að bjarga 39 farþegum og fimm manna áhöfninni en sex rússneskir ferðamenn létust. 

Rússneskir fjölmiðlar segja að tvö börn séu á meðal þeirra látnu. Samkvæmt egypskum yfirvöldum liggja dætur hjóna sem fórust í slysinu slasaðar á sjúkrahúsi.

Níu ferðamenn eru slasaðir, þar af fjórir lífshættulega, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC. Ferðamennirnir sem voru um borð voru frá Rússlandi, Indlandi, Noregi og Svíþjóð en áhöfnin var egypsk.

Sindbad hefur verið gerður út til útsýnisferða af þessu tagi um árabil. Hann gat kafað niður á tuttugu til tuttugu og fimm metra dýpi og gátu ferðamenn virt fyrir sér kóralrif og sjávardýr í gegnum stýr kýraugu á hliðum hans. Amr Hanafy, ríkisstjóri Rauðahafs, segir að kafbáturinn hafi haft fullgilt leyfi og að stjórnandi ferðarinnar hafi verið með tilskilin réttindi.

Ekki liggur fyrir hvernig slysið átti sér stað. Samtök ferðaþjónustufyrirtækja í Rússlandi segir að kafbáturinn hafi rekist á kóralrif og misst þrýsting á um tuttugu metra dýpi.

BBC hefur eftir breskum manni sem ferðaðist með kafbátnum í febrúar að hann hafi virst í góðu ástandi og búinn nútímalegum tækjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×