Erlent

Einn sagður hafa drepið hina tvo

Samúel Karl Ólason skrifar
Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Myndin tengist fréttinni ekki beint. EPA/CARINA JOHANSEN

Lögreglan í Noregi telur nú að einn þeirra þriggja sem fundust látnir í suðurhluta Noregs í morgun hafi banað hinum tveimur. Enn er til rannsóknar hvernig hinn grunaði dó og hvort hann hafi mögulega einnig verið myrtur.

Tveir fundust látnir í húsi í bænum Lindesnes í morgun eftir að tilkynning barst um erjur á heimilinu. Um klukkustund síðar fannst sá þriðji látinn við bíl á bílastæði í bænum Mandal. Sá er nú grunaður um morð og segir lögreglan hann hafa klár tengsl við hina látnu. Lögreglan hefur ekki enn sagt frá því hvaða fólk um er að ræða, né hvernig fólkið dó.

Í frétt VG segir að búið sé að bera kennsl á fólkið og láta ættingja vita.

Dauði mannsins á bílastæðinu er skilgreindur sem grunsamlegur, samkvæmt VG, og er verið að rannsaka hvort enn fleiri hafi komið að málinu.

Lögreglan hefur þó sagt að Norðmenn á svæðinu hafi ekki tilefni til að óttast um öryggi sitt.

Búið er að biðja íbúa eða alla sem telji sig geta varpað ljósi á málið um að hafa samband við lögregluna í Noregi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×