Fótbolti

Meistarar í ellefta sinn á síðustu þrettán árum

Smári Jökull Jónsson skrifar
Leikmenn PSG fagna í leikslok.
Leikmenn PSG fagna í leikslok. Vísir/Getty

PSG varð í dag franskur meistari í knattspyrnu en þetta er fjórði meistaratitill liðsins í röð. Parísarliðið tryggði titilinn með sigri á Angers í dag.

Lið PSG undir stjórn Luis Enrique er enn taplaust í deildinni á tímabilinu og ljóst fyrir löngu síðan að titilinn myndi enda hjá þeim. Fyrir leikinn gegn Angers í dag var PSG með tuttugu og eins stigs forskot á Monaco.

Leikurinn gegn Angers var þó engin flugeldasýning. Staðan í hálfleik var markalaus og eina mark leiksins kom á 55. mínútu þegar Desire Doue skoraði eftir sendingu frá Khvicha Kvaratskhelia.

Þegar leiknum lauk var ljóst að titillinn var tryggður og hefðu engu máli skipt þó Monaco hefði unnið sigur í sínum leik en þeir töpuðu 2-1 gegn Brest í dag.

Þetta er þrettándi meistaratitill PSG og sá ellefti á síðustu þrettán árum. Síðan árið 2012 hafa aðeins Monaco og Lille komið í veg fyrir að PSG fagni titlinum en stóra markmiðið að vinna Meistaradeildina hefur aldrei náðst. Það gæti þó gerst í ár því PSG er komið í 8-liða úrslit keppninnar og mætir Aston Villa í 8-liða úrslitum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×