Handbolti

Stelpurnar földu aug­lýsingu Rapyd eftir sigurinn

Valur Páll Eiríksson skrifar
Stelpurnar í landsliðinu settu hönd yfir merki Rapyd á treyjunni, líkt og sjá má á myndinni.
Stelpurnar í landsliðinu settu hönd yfir merki Rapyd á treyjunni, líkt og sjá má á myndinni. Vísir/Hulda Margrét

Íslenska kvennalandsliðið í handbolta tryggði sæti sitt á HM með öðrum öruggum sigrinum á Ísrael á jafnmörgum dögum að Ásvöllum í gær. HM-sætinu var fagnað en stuðningsaðili HSÍ falinn í myndatöku eftir leik.

Mikil umræða skapaðist um leikina og havaríið sem þeim fylgdi. Spila þurfti þá fyrir luktum dyrum og tómri stúku vegna tilmæla ríkislögreglustjóra tengda öryggismálum.

Margur kallaði eftir sniðgöngu landsliðskvenna Íslands vegna framgangs Ísraela í Palestínu. Landsliðskonur fengu fjölmörg skilaboð í aðdraganda leikjanna og sagðar hlynntar þjóðarmorði Ísraela með því að spila leikinn.

Arnar Pétursson, landsliðsþjálfari, sem og Steinunn Björnsdóttir, landsliðsfyrirliði, sögðu eftir leik í gær að full langt hefði verið gengið í gagnrýni á leikmenn liðsins en fordæmdu sömuleiðis framgöngu Ísraela.

„Leikmenn fengu yfir sig holskeflu af svívirðilegum ásökunum þar sem þær voru sakaðar um það að með því að spila þennan leik væru þær samþykkar þeim hræðilegu atburðum sem eiga sér stað fyrir botni Miðjarðarhafs. Við höfum verið skýr með það að við fordæmum þau stríðsátök sem eiga sér stað þar og mér þykir afar miður að leikmenn mínir séu sakaðir um slíkan viðbjóð og raun bar vitni,“ sagði Arnar við Vísi eftir leik og bætti við:

„Alþjóðasamfélagið hefur ekki tekið nógu föstum tökum á því sem á sér stað á Gaza-svæðinu og það þykir mér persónulega óboðlegt. Stjórnmálamenn, alþjóðasamtök, alþjóðleg íþróttasambönd og menningarheimurinn eiga að mínu mati að stíga fastar til jarðar þegar kemur að því að fordæma og bregðast við þessum hörmulegu morðum sem eiga sér stað fyrir botni Miðjarðarhafs.“

Landsliðskonur Íslands hylja merki Rapyd í myndatöku gærkvöldsins.Vísir/Hulda Margrét

Ísraelska fyrirtækið Rapyd er einn aðalstyrktaraðila HSÍ sem sambandið hefur löngum verið gagnrýnt fyrir. Það sést á liðsmyndum eftir leik gærkvöldsins að leikmenn liðsins hylja merki Rapyd í myndatöku er þær fagna HM-sætinu.

Leikmenn liðsins senda þar skýr skilaboð um ósætti við að ísraelskt fyrirtæki sé einn meginstyrktaraðila sambandsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×