Innlent

Krist­rún og Guð­mundur leiða á­fram flokkinn

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Kjörin stjórn Samfylkingarinnar.
Kjörin stjórn Samfylkingarinnar. Samfylkingin

Kristrún Frostadóttir var endurkjörin formaður Samfylkingarinnar og hlaut 98,67 prósent greiddra atkvæða. Guðmundur Árni og Jón Grétar voru báðir endurkjörnir í embætti varaformanns og gjaldkera.

Kristrún var ein í framboði til formanns en hún kom inn í starf Samfylkingarinnar í aðdraganda þingkosninganna árið 2021 og hefur verið formaður frá árinu 2022.

Að sögn Arnars Þórs Ingólfssonar, starfsmanni þingflokksins, voru 1,33 prósentin sem eftir stóðu „örfáir auðir seðlar.“

Guðmundur Árni Stefánsson, varaformaður Samfylkingarinnar, var sá eini sem sóttist eftir kjöri sem varaformaður og var því sjálfkjörinn. Það lá fyrir þegar framboðsfresturinn rann út fyrr í dag. Jón Grétar Þórsson, gjaldkeri Samfylkingarinnar, sóttist einnig eftir endurkjöri og bauð enginn annar sig fram í embættið. Hann var því sjálfkjörinn.

Bæði Guðmundur og Jón Grétar hafa sinnt embættunum frá árinu 2022.

Tveir voru í framboði til ritara, Guðný Birna Guðmundsdóttir, oddviti í Reykjanesbæ, og Gylfi Þór Gíslason, formaður Verkalýðsmálaráðs Samfylkingarinnar. Guðný Birna hlaut kjör sem ritari.

Katrín Júlíusdóttir, fyrrverandi þingmaður, ráðherra og varaformaður flokksins, var ein í framboði til formanns framkvæmdastjórnar og var hún því sjálfkjörin.

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×