Viðskipti innlent

Um 80 pró­sent vilja að gjöld út­gerða taki mið af raun­veru­legu afla­verðmæti

Lovísa Arnardóttir skrifar
Bolli Héðinsson hagfræðingur fer fyrir samtökunum Þjóðareign.
Bolli Héðinsson hagfræðingur fer fyrir samtökunum Þjóðareign. Samsett

Rúm 80 prósent þjóðarinnar vilja að veiðigjöld taki mið af raunverulegu aflaverðmæti. Það eru niðurstöður könnunar sem Gallup framkvæmdi fyrir félagasamtökin Þjóðareign. Þar var spurt hversu hlynnt eða andvígt fólk væri því að útgerðin greiði gjald sem taki mið af raunverulegu aflaverðmæti fyrir afnot af fiskimiðunum.

Alls voru 42,8 prósent alfarið hlynnt, 17,3 prósent mjög hlynnt og 15 prósent frekar hlynnt. 10,3 prósent sögðu hvorki né en andvíg voru samanlagt 9,2 prósent.

Um 80 prósent samanlagt eru hlynnt því að útgerðir greiði gjald sem taki mið af raunverulega aflaverðmæti. Þjóðareign

Ef litið er til bakgrunnsbreyta má sjá að niðurstöðurnar eru nokkuð líkar sama hvaða breyta er litið til en taka þó nokkrum breytingum þegar litið er til þeirra stjórnmálaflokka sem fólk styður.

Sem dæmi segja 84 prósent kjósenda Pírata að þau séu alfarið hlynnt fullyrðingunni og 72 prósent kjósenda Samfylkingarinnar. Ef litið er til annarra ríkisstjórnarflokka þá má sjá að 62 prósent kjósenda Viðreisnar eru alfarið hlynnt og 23 prósent mjög hlynnt og 59 prósent kjósenda Flokks fólksins alfarið hlynnt og 17 prósent mjög hlynnt.

Hér má sjá niðurstöður sundurliðaðar eftir því hvaða flokk fólk myndi kjósa í Alþingiskosningum. Þjóðareign

Mesta andstaðan er hjá kjósendum Framsóknarflokksins þar sem 17 prósent segjast frekar andvíg og fimm prósent mjög andvíg og hjá kjósendum Miðflokksins þar sem átta prósent segjast alfarið á móti, sjö prósent mjög andvíg og 17 prósent frekar andvíg.

Mesta andstaðan er þó hjá fólki sem skilar auðu eða myndi ekki kjósa í Alþingis. Þar segja tólf prósent að þau séu alfarið andvíg, tólf prósent frekar andvíg og 17 prósent mjög andvíg.

Í tilkynningu kemur fram að um hafi verið að ræða netkönnun með 1.714 manna úrtaki 18 ára og eldri af öllu landinu. Spurningunni svöruðu alls 823 og var þátttökuhlutfall því 48 prósent.

Þörf leiðrétting ekki breyting

Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra lagði í síðasta mánuði fram frumvarp sem gerir ráð fyrir því að tvöfalda veiðigjaldið. Í könnun Maskínu um viðhorf til frumvarps ráðherra í upphafi mánaðar kom fram að rúmlega sextíu prósent þjóðarinnar eru hlynnt frumvarpinu. Þar kom einnig fram að um 94 prósent töldu útgerðirnar geta greitt hærri veiðigjöld en þær gera í dag.

Í tilkynningu stjórnvalda um breytingu á veiðigjöldunum kom fram að við skoðun þeirra á veiðigjöldunum hafi niðurstaðan verið sú að sú aðferð sem hefur verið notuð til að reikna gjöldin hafi ekki endurspeglað raunverulegt aflaverðmæti nytjastofna. Frumvarpinu er því ætlað að bæta úr því.

„Ekki er um að ræða breytingar á því fiskveiðistjórnunarkerfi sem verið hefur við lýði á Íslandsmiðum undanfarna áratugi, heldur þarfa leiðréttingu,“ sagði í tilkynningunni.


Tengdar fréttir

„Þessi leiðrétting er hið rétta í stöðunni“

Atvinnuvegaráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra kynntu í dag drög að lagabreytingum á lögum um veiðigjöld. Gagnrýni barst áður en frumvörpin voru kynnt en fjármálaráðherra segir hana vera langsótta. Samkvæmt greiningu ráðuneytanna sé ljóst að veiðigjöldin hafi átt að vera mun hærri.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×