Erlent

Telja á­kvæði jafn­réttislaga ekki ná yfir trans konur

Kjartan Kjartansson skrifar
Konur úr samtökum kvenna sem eru mótfallin trans fólki með mótmælaspjöld fyrir utan Hæstarétt Bretlands í morgun.
Konur úr samtökum kvenna sem eru mótfallin trans fólki með mótmælaspjöld fyrir utan Hæstarétt Bretlands í morgun. Vísir/EPA

Hæstiréttur Bretlands komst að þeirri niðurstöðu í dag að ákvæði jafnréttislaga um konur næðu aðeins til „líffræðilegs kyns“ en ekki trans kvenna. Hópur andstæðinga trans fólks háði áralanga baráttu fyrir dómstólum til þess að fá þá niðurstöðu fram.

Dómsmálið snerist um merkingu hugtakanna „kyns“, „karls“ og „konu“ í breskum jafnréttislögum. Samtök kvenna sem eru mótfallin trans fólki stefndu skoskum stjórnvöldum þegar þau samþykktu lög um jöfn kynjahlutföll í stjórnum opinberra stofnana árið 2018 sem gerðu ráð fyrir að trans konur teldust konur. Stjórnandi samtakanna hélt því fram að þannig gætu stjórnir opinberra stofnana verið skipaðar eingöngu „körlum“.

Æðsti dómstóll Bretlands kvað upp dóm sinn í dag. Niðurstaða hans var að í skilningi breskra jafnréttislaga væru kynin aðeins tvö og að gengið væri út frá „líffræðilegu“ kyni fólks. Þrátt fyrir að orðið „líffræðilegt“ kæmi ekki fram í lögunum mætti lesa það úr þeim að ákvæðin næðu yfir fólk sem hefði tiltekin líffræðileg einkenni sem gerði það annað hvort að körlum eða konum. Aðrar túlkanir á lögunum gerðu þau „samhengislaus og óframfylgjanleg“.

Niðurstaðan snerist þó aðeins um túlkun á lögunum sjálfum, ekki almenna skilgreiningu á kynjunum. Forseti dómsins hvatti fólk til þess að túlka niðurstöðuna ekki sem sigur eins á kostnað annars. Jafnréttislögin veittu trans fólki áfram réttindi og vernd gegn mismunun eða ofsóknum á grundvelli kynvitundar þess.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×