Veður

Bjart veður víðast hvar en víða frost í nótt

Atli Ísleifsson skrifar
Gera má ráð fyrir að hiti fari upp í sex til ellefu stig.
Gera má ráð fyrir að hiti fari upp í sex til ellefu stig. Vísir/Vilhelm

Veðurstofan gerir ráð fyrir hægri breytilegri átt og björtu veðri um mest allt land. Við suðurströndina má hins vegar búast við heldur hvassari austanátt, átta til þréttán metrum á sekúndu, og jafnvel skýjuðu veðri með dálítilli vætu af og til.

Á vef Veðurstofunnar segir að hiti fari upp í sex til ellefu stig.

„Í nótt, er sumar byrjar, má búast við vægu frosti víða um landið norðan- og austanvert, en frostlaust að mestu sunnan- og suðvestanlands,“ segir á hugleiðingum veðurfræðings.

Spákort fyrir klukkan 14.Veðurstofan

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á fimmtudag (sumardagurinn fyrsti): Austan og suðaustan 5-13 m/s, en heldur hvassari við suðurströndina. Lítilsháttar rigning á suðaustanverðu landinu, en bjartviðri norðan- og vestanlands. Hiti frá 5 stigum austast á landinu, upp í 14 stig á Suðvesturlandi.

Á föstudag: Suðaustan 5-13 og rigning með köflum, einkum suðaustanlands, en úrkomulítið á norðaustanverðu landinu. Hiti 6 til 15 stig, hlýjast fyrir norðan.

Á laugardag: Suðlæg átt 3-10 og rigning eða súld, en úrkomuminna fyrir norðan. Hiti breytist lítið.

Á sunnudag: Breytileg átt 5-13 og rigning af og til í flestum landshlutum. Hiti 4 til 10 stig.

Á mánudag: Útlit fyrir breytilega átt. Skýjað og dálítil væta. Vaxandi austanátt með rigningu seinnipartinn, fyrst sunnantil. Hiti svipaður.

Á þriðjudag: Líklega breytileg átt og dregur úr úrkomu, víða úrkomulítið síðdegis. Bætir aftur í vætu suðvestanlands um kvöldið. Hiti 5 til 10 stig yfir daginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×