Íslenski boltinn

Þór­dís Hrönn með stoðsendingu fyrir sjötta fé­lagið í efstu deild

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þórdís Hrönn Sigfúsdóttir leggur upp mörk hvert sem hún fer.
Þórdís Hrönn Sigfúsdóttir leggur upp mörk hvert sem hún fer. Vísir/Hulda Margrét

Þórdís Hrönn Sigfúsdóttir var bæði með mark og stoðsendingu í sigri Víkingskvenna í Garðabænum í Bestu deild kvenna í fótbolta í gær.

Þórdís var þarna að koma að sínum fyrstu mörkum sem leikmaður Víkingsliðsins en hún gekk til liðs við liðið í vetur.

Hún lagði upp fyrsta mark leiksins fyrir Lindu Líf Boama og skoraði síðan fjórða markið sjálf eftir stoðsendingu frá Lindu. Víkingsliðið vann leikinn á endanum 6-2.

Þórdís hefur þar með náð að gefa stoðsendingu fyrir sex félög í efstu deild á síðustu átta tímabilum. Hún hefur enn fremur skorað fyrir fimm þessara liða.

Þórdís var stoðsendingadrottning deildarinnar sem leikmaður Vals sumarið 2022 en missti svo af tímabilinu á eftir vegna krossbandsslits. Hún var síðan með tvær stoðsendingar hjá Valsliðinu í fyrra.

Þórdís varð einnig stoðsendingadrottning deildarinnar sumarið 2018 sem leikmaður Stjörnunnar, hún gaf síðan tvær stoðsendingar sem leikmaður Breiðabliks 2021, tvær stoðsendingar sem leikmaður KR 2020 og þrjár stoðsendingar sem leikmaður Þór/KA sumarið 2019.

Hún skoraði fyrir öll þessi félög nema KR-liðið sumarið 2020.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×