Erlent

Þrír látnir og tugir særðir

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Myndin er tekin í Kharkiv þar sem árásir Rússa eru nær daglegar.
Myndin er tekin í Kharkiv þar sem árásir Rússa eru nær daglegar. Vísir/EPA

Úkraínumenn segja að þrír séu látnir hið minnsta í árásum Rússa á landið í nótt sem hafa haldið áfram þrátt fyrir gagnrýni Trumps Bandaríkjaforseta á athæfin í gær. Eitt barn liggur í valnum og tugir eru særðir. Hundrað og þrír drónar voru notaðir við árásir í nótt sem beindust aðallega að borgunum Kharkiv og Pavlohrad þar sem dauðsföllin urðu.

Engar skotflaugar voru þó notaðar í árásum næturinnar en Donald Trump sagðist í gær vera að setja mikinn þrýsting á Rússa sem og Úkraínumenn að hætta átökum og semja um frið. Hann vildi ekki fara nánar út í þá sálmar, en samkvæmt heimildum breska ríkisútvarpsins vinna stjórnvöld í Washington enn eftir þeim tillögum sem settar voru fram á dögunum og Selenskí Úkraínuforseti hafnaði algjörlega. 

Þær ganga út frá að Krímskagi sé Rússa, auk þess sem Rússar fái allt það landsvæði sem þeir hafa vald á í Úkraínu eins og víglínan er í dag. Þó hefur einnig verið greint frá því að samningar Úkraínu og Bandaríkjanna um aðgang Bandaríkjamanna að auðæfum í jörðu Úkraínu séu langt komnir, þótt enn sé ekkert ákveðið í eim efnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×