Skoðun

Fyrst flúðu þau Reykja­víkur­borg…

Diljá Mist Einarsdóttir skrifar

Fjölskyldan er hornsteinn samfélagsins og fólksfjölgun forsenda þess að viðhalda samfélagi. Fæðingartíðni hefur enda verið mikið áhyggjuefni í nágrannalöndum okkar, en við höfðum lengi sérstöðu í þeim efnum. Nú er öldin önnur og fæðingartíðni á Íslandi í sögulegu lágmarki. Það er athyglisvert að sjá íslenskar rannsóknir sem sýna okkur að fæðingartíðni hefur minnkað mest hjá þeim sem eru í lægri tekjuþrepum og er munurinn mjög mikill á efsta og lægsta tekjuþrepi.

Mikil umræða hefur skapast í nágranna- og vinaþjóðum um hvernig sé hægt að styðja betur við bakið á fjölskyldum til að bregðast við framangreindri þróun. Undirrituð hefur í tvígang lagt fram frumvarp með hópi sjálfstæðismanna um skattaafslátt fyrir barnafjölskyldur. Við erum þeirrar skoðunar að það þurfi að lækka skatta og opinbera álögur séu of miklar á fjölskyldur í landinu. Útfærsla af slíkum afslætti varð að kosningaáherslu Sjálfstæðisflokksins í síðustu alþingiskosningum, enda skiljum við mikilvægi þess að létta róðurinn hjá fjölskyldum með stuðningi sem skiptir máli.

Samfylking og Viðreisn bíta höfuðið af skömminni

Það hefði ekki átt að koma á óvart að ríkisstjórn Samfylkingar og Viðreisnar settu fjölskyldur landsins ekki í fyrsta sætið. Þetta eru jú flokkar sem hafa stýrt höfuðborginni saman um árabil. Borginni þar sem börn á Íslandi bíða lengst eftir dagvistunarplássi og frístundavandinn er viðvarandi. Reyndar hefur börnum á leikskólaaldri fækkað umtalsvert í Reykjavík undanfarinn áratug meðan þeim hefur fjölgað í nágrannasveitarfélögum. Barnafjölskyldur flýja Reykjavíkurborg, en þær flýja landsstjórnina ekki jafn auðveldlega.

Þessi stjórnvöld bera ábyrgð á því að foreldrar þurfa í stórum stíl að lengja fæðingarorlof, vera utan vinnumarkaðar og missa jafnvel vinnuna vegna dagvistunarvandans. Sömu stjórnvöld bíta nú höfuðið af skömminni og boða afnám samsköttunar hjóna og sambýlisfólks. Það eru kaldar kveðjur til fjölskyldna sem eru í erfiðri stöðu eftir að fæðingarorlofi lýkur og skýr skilaboð um að einblína á einstaklinginn í stað þess að fjölskyldan sé ein eining þegar kemur að skattheimtu.

Þessi tillaga ríkisstjórnarinnar um afnám samsköttunar hjóna og sambýlisfólks mun bitna helst á heimilum sem glíma nú þegar við áskoranir. Heimilum þar sem annað foreldri hefur tímabundið lægri tekjur t.d. vegna veikinda, barnseigna eða annarra ástæðna. Á þessum heimilum býr almenningur svo sannarlega, sami almenningur og ríkisstjórnin hefur ítrekað sagt að muni ekki verða fyrir skattahækkunum.

Höfundur er þingmaður Sjálfstæðisflokksins




Skoðun

Skoðun

Konur og menntun

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir,Steinunn Bragadóttir skrifar

Sjá meira


×