Íslenski boltinn

Gylfi valdið mestum von­brigðum

Valur Páll Eiríksson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson sneri aftur á Hlíðarenda í gær en tókst ekki að setja mark sitt á leikinn.
Gylfi Þór Sigurðsson sneri aftur á Hlíðarenda í gær en tókst ekki að setja mark sitt á leikinn. vísir / diego

Gylfi Þór Sigurðsson er sá leikmaður sem hefur valdið mestum vonbrigðum það sem af er leiktíð í Bestu deild karla samkvæmt sérfræðingum Stúkunnar. Gylfa hefur ekki tekist að setja mark sitt á leik Víkinga þar sem af er móti.

Gylfi Þór spilaði allan leikinn í jafntefli Víkings við Val á Hlíðarenda í gær en var ekki áberandi í sóknarleik gestanna í endurkomu sinni á heimavöll Valsmanna. Hann fékk að líta rautt spjald í fyrsta leik en Víkingar hafa nú spilað þrjá leiki í röð, tvo í deild og einn í bikar, án þess að vinna.

Klippa: FH-ingar í fallbaráttu og Gylfi mestu vonbrigðin

Vítaspyrnumark Helga Guðjónssonar er eina mark liðsins í síðustu þremur leikjum. Víkingur tapaði 3-0 fyrir ÍBV á Þórsvelli í bikarkeppninni og 1-0 fyrir Aftureldingu í Mosfellsbæ í deildinni áður en kom að jafntefli gærdagsins.

Í uppbótartíma Stúkunnar, þar sem fjórða umferð deildarinnar var gerð upp, var spurt hvaða leikmaður í deildinni hefði valdið mestum vonbrigðum. Albert Brynjar Ingason sat ekki á svörum.

„Gylfi. Alveg klárlega. Hann er ekkert búinn að gera. Rautt spjald og síðustu tveir leikir slæmir. Viktor Jónsson líka,“ segir Albert Brynjar.

Arnar Grétarsson sammæltist því. „Ég get alveg tekið undir það. Gylfi á mikið inni, Kjartan Kári [Halldórsson] á mikið inni.“

Næsti leikur Víkings er við Fram í Víkinni þann 5. maí.

Umræðuna má sjá í spilaranum að ofan.


Tengdar fréttir

Sannfærðir um að FH verði í fallbaráttu

Þeir Albert Brynjar Ingason og Arnar Grétarsson sammæltust um það í Stúkunni á Stöð 2 Sport í gærkvöld að FH-ingar verði í fallbaráttu í sumar. Hafnfirðingar eru í botnsæti Bestu deildar karla og hafa aðeins náð í eitt stig í fyrstu fjórum leikjum liðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×