Viðskipti innlent

Rann­saka meint samkeppnisbrot Lands­virkjunar

Árni Sæberg skrifar
Hörður Arnarson er forstjóri Landsvirkjunar.
Hörður Arnarson er forstjóri Landsvirkjunar. Vísir/Einar

Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, hefur hafið formlega málsmeðferð gegn Landsvirkjun til að rannsaka hvort félagið hafi brotið samkeppnisreglur EES.

Í fréttatilkynningu frá ESA segir að stofnunin hafi ákveðið í dag að hefja formlega rannsókn á því hvort Landsvirkjun hafi brotið gegn samkeppnisreglum EES með því að neita að afhenda raforku til fyrirtækja sem leitast eftir því að framleiða vetni og/eða rafeldsneyti á Íslandi. Slík háttsemi gæti talist samkeppnishamlandi.

Rannsóknin muni snúa að því hvort markaðshegðun Landsvirkjunar í samningum og viðræðum um hugsanlega langtíma orkukaupasamninga og viðmið Landsvirkjunar við val á mögulegum viðskiptavinum brjóti gegn samkeppnisreglum EES.

Ákvörðun ESA um að hefja rannsókn á mögulegri samkeppnishamlandi háttsemi hafi verið tekin í kjölfar kvörtunar frá aðilum á markaði. Frá því að kvörtunin barst hafi ESA aflað og greint upplýsingar sem tengjast vetnis- og rafeldsneytisverkefnum og -mörkuðum.

ESA hafi tilkynnt Landsvirkjun, framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og samkeppnisyfirvöldum EES EFTA-ríkjanna um að stofnunin hafi hafið rannsókn á samkeppnishamlandi háttsemi.

Athugun á mögulegri samkeppnishamlandi hegðun sé ekki bundin neinum lögbundnum tímafrestum. Tímalengd samkeppnisrannsóknar velti á ýmsum þáttum, þar á meðal flækjustigi máls og samvinnu þeirra fyrirtækja sem sæta rannsókn ESA.

Ákvörðunin um að hefja málsmeðferð feli hvorki í sér að ESA hafi komist að niðurstöðu um brot né vísbendingu um endanlega niðurstöðu rannsóknarinnar. Ákvörðunin feli eingöngu í sér upphaf ítarlegrar rannsóknar ESA.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×