Fótbolti

Þór/KA og Blikar á­fram í bikar: Sex­tán ára aldurs­munur á markaskorurum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Edith Kristín Kristjánsdóttir, sem er hér lengst til hægri, skoraði þriðja mark Blika en hún verður ekki sautján ára fyrr en í júlí.
Edith Kristín Kristjánsdóttir, sem er hér lengst til hægri, skoraði þriðja mark Blika en hún verður ekki sautján ára fyrr en í júlí. Vísir/Pawel

Þór/KA og Breiðablik voru fyrstu tvö liðin til að tryggja sér sæti í átta liða úrslit Mjólkurbikars kvenna í fótbolta en sextán liða úrslitin hófust í dag.

Þór/KA vann 6-0 heimasigur á Lengjudeildarliði KR í Boganum á Akureyri. Sandra María Jessen skoraði tvö mörk í fyrri hálfleiknum og Amalía Árnadóttir eitt.

Reynsluboltinn Margrét Árnadóttir og táningarnir Emelía Ósk Kruger og Bríet Fjóla Bjarnadóttir bættu síðan við mörkum í seinni hálfleiknum.

Breiðablik vann 3-0 sigur á FHL í Fjarðabyggðarhöllinni á Reyðarfirði. Mörkin skoruðu þær Hrafnhildur Ása Halldórsdóttir, Berglind Björg Þorvaldsdóttir og Edith Kristín Kristjánsdóttir.

Það var mikill aldursmunur á markaskorurum í báðum liðum sem komust áfram. Hjá Breiðabliki er Edith Kristín (fædd 2008) sextán árum yngri en Berglind Björg (1992) en hjá Þór/KA er Sandra María (1995) fimmtán árum eldri en Bríet Fjóla (2010).

Það er því átján ára aldursmaður á elsta (Berglind Björg) og yngsta markaskorara dagsins (Bríet Fjóla) í Mjólkurbikar kvenna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×