Skoðun

Að vilja meira og meira, meira í dag en í gær

Harpa Fönn Sigurjónsdóttir skrifar

Við lifum á breyttum tímum.

Í dag er húsnæðisskortur, það er orkuskortur og stefnir í jarðefna- og auðlindaskort. Það þarf meiri tækni og vísindi, það þarf að nýta alla þessa grænu orku, helst í gær. Það þarf að kolefnishlutleysa, flokka úrgang og hreinsa veitukerfin, bæta við akreinum, göngum, brúm, flugvöllum, athafnasvæðum, iðnaði. Það þarf að ryðja meira land, rannsaka hafauðlindir, fara út i geim.

Aðalatriðið er að gefa í en ekki hægja á.

En hvað kostar það og höfum við efni á því? Og fyrir hvern og hvert er ferðinni heitið?

Er það til að lifa á eða af jörðinni? Til að lifa með náttúru okkar í jafnvægi, sem þýðir minni neyslu og nægjusemi. Eða einfaldlega til að gefa enn meira í?

Staðan í dag

Á heimsvísu er 95% af landmassa jarðarinnar undir áhrifum mannskepnunnar. Verulega breyttur landmassi er þar 75%, þar af 85% votlendi. Á jörðinni eru jafnframt 160.000 dýrategundir í hættu.

Langstærsta hlutfall orkunotkunar fer í hið byggða umhverfi. Lífsnauðsynjar, eins og byggingarefni (húsaskjól), matvæli, vatn og samfélags- og heilbrigðisþjónusta, verða sífellt kostnaðarsamari. Ofan á það flæða um 10.000.000 nýrra manngerða efna á markaðinn á ári hverju, og hvorki eru innviðir né pláss til að taka við öllu þessu rusli og úrgangi, né veita menguninni frá lífkerfum.

Á Íslandi eru í dag 10.000 tómar íbúðir (heimild), við eigum heimsmet í raforkunotkun, vistspor okkar Íslendinga er fjórum sinnum hærra en meðalvistspor jarðarbúa, og ef allir lifðu eins og Íslendingar þyrfti sjö jarðir.

Öll umskipti og binding kosta gríðarlega fjármuni og ágang á aðrar auðlindir. Á sama tíma er jörðin og heilbrigði okkar allra einfaldlega að kikna undan álagi...

Hvað með?

  • Hvað með að takmarka umsvif byggingarframkvæmda, skilgreina húsnæði sem auðlind og mannréttindi og banna sem fjárfestingarkost, og aðstoða frekar öll að hafa efni og aðgang að heilnæmu og öruggu húsaskjóli?
  • Hvað með að setja skorður á starfsemi bankanna og lækka frekar vexti á íbúðalánum?
  • Hvað með að minnka frekar raforkunotkun í húsnæði með því að læra að umgangast þessa auðlind af sparneytni?
  • Hvað með að stýra betur orkunni, og innheimta raunverð og viðeigandi álag?
  • Hvað með að banna einnota umbúðir, vörur og plast og umbuna þeim sem endurnýta?
  • Hvað með að hafa eftirlit og stjórn með efnaframleiðslu og banna efnanotkun á heimilum, og takmarka hana í landbúnaði og umhverfinu?
  • Hvað með að iðka frekar hæglæti, nægjusemi og takmarka neyslu?
  • Hvað með að hægja frekar á og þurfa ekki að þeysast út um allt?

Að láta segja okkur að við þurfum meira og meira eru ekki endilega öll sannindin. Áður en við hlustum á einhvern segja okkur að það sé skortur, þarf að taka til greina hver er að segja okkur það. Að bæta sífellt á og reyna að finna lausnir til að halda áfram viðteknum hætti, lætur okkur missa sjónar af rótinni.

Hver græðir á lausnunum og hver kemur til með að græða ef við hægjum á?

Það er spurningin.

Höfundur er lögfræðingur og umhverfissinni.




Skoðun

Sjá meira


×