Veður

Ekkert lát á sumar­veðrinu

Kjartan Kjartansson skrifar
Besta veðrinu er áfram spáð á Norður- og Austurlandi. Myndin er frá Akureyri, höfuðstað Norðurlands.
Besta veðrinu er áfram spáð á Norður- og Austurlandi. Myndin er frá Akureyri, höfuðstað Norðurlands. Vísir/Vilhelm

Enn er spáð björtu og hlýju veðri á landinu í dag og og næstu daga. Hitinn gæti náð 23 stigum á Norðausturlandi þar sem verður hlýjast. Líkur eru þó á þokubökkum við sjóinn á sunnan- og austanverðu landinu.

Suðlægar áttir hafa verið ríkjandi á landinu undanfarna daga og ekkert lát er á því. Spáð er suðlægri eða breytilegri átt 3-8 metrum á sekúndu í dag en 8-15 metrum á sekúndu vestast á landinu. Víða verður léttskýjað og bjart en líkur á þokubökkum við ströndina. Hiti verður yfirleitt tólf til tuttugu og þrjú stig, hlýjast á Norður- og Austurlandi.

Á morgun er spáð suðaustan 3-8 metrum á sekúndu en heldur hvassara veðri vestast, sérstaklega á Snæfellsnesi. Áfram er gert ráð fyrir bjartviðri og hlýindum. Á sunnudag á að vera hæg breytileg átt eða hafgola. Víða er spáð bjartviðri en sums staðar þokulofti við suður- og austurströndina. Hitinn gæti verið á bilinu fimmtán til tuttugu og þrjú stig.

Sumarveðri er einnig spáð á mánudag og þriðjudag. Útlit er svo fyrir vætu á vestanverðu landinu seint á miðvikudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×