Innlent

Skoða hvort eitt­hvað sak­næmt hafi átt sér stað

Jón Þór Stefánsson skrifar
Mynd frá slökkvistörfum við Hjarðarhaga í gær.
Mynd frá slökkvistörfum við Hjarðarhaga í gær. Vísir/Anton Brink

Ekki er vitað hver upptök mannskæðs eldsvoða voru í fjölbýlishúsi í Hjarðarhaga í Vesturbæ Reykjavíkur í gær. Það er nú til rannsóknar hjá lögreglu sem skoðar meðal annars hvort eitthvað saknæmt hefði átt sér stað.

„Rannsókn á eldsupptökum stendur enn þá yfir. Hún tekur smá tíma og er umfangsmikil,“ segir Ævar Pálmi Pálmason aðstoðaryfirlögregluþjónn í samtali við fréttastofu.

„Hvort þetta sé saknæmt, það er líka eitt af því sem er til rannsóknar. Eldsupptökin yfir höfuð, hvers vegna kviknaði í? Hvort það hafi gerst með saknæmum hætti eða ekki? Það er það sem við erum að skoða.“

Greint var frá því síðdegis í gær að einn hefði látist og annar væri þungt haldinn vegna eldsins sem kom upp í íbúð í fjölbýlishúsi í Hjarðarhaga í gærmorgun.

 Að sögn Ævars bjuggu fjórir saman í íbúðinni.

Jafnframt kom fram í gær að þrír fullorðnir karlmenn hefðu verið í íbúðinni þegar eldurinn kom upp og þeir fluttir á slysadeild. Hinn látni mun vera einn þeirra. Greint var frá því að einn hinna þriggja hafi verið með meðvitund þegar viðbraðgsaðilar komu á vettvang, og tekist að segja frá því að fleiri væru í íbúðinni.

Ævar segir fyrirhugað í dag að taka skýrslu af þeim manni. Þá væri búið er að taka skýrslu af vitnum, líkt og tilkynnendum og íbúum í húsinu.

Lögreglan rannsakaði vettvang í gær.Vísir/Anton Brink



Fleiri fréttir

Sjá meira


×