Innlent

Þing­lok 2026 verði 12. júnî

Atli Ísleifsson skrifar
Þórunn Sveinbjarnardóttir er forseti Alþingis og fer fyrir forsætisnefnd þingsins.
Þórunn Sveinbjarnardóttir er forseti Alþingis og fer fyrir forsætisnefnd þingsins. Vísir/Vilhelm

Þó að þinglok virðast ekki í sjónmáli vegna umræðna um veiðigjaldafrumvarp ríkisstjórnarinnar hefur samkomulag náðst innan forsætisnefndar þingsins um starfsáætlun næsta löggjafarþings, þess 157. í röðinni. Samkvæmt áætluninni, sem samþykkt var í gær, verður þing sett þriðjudaginn 9. september næstkomandi og þingi frestað föstudaginn 12. júní 2026.

Á vef Alþingis má sjá að stefnuræða forsætisráðherra verður flutt og umræður um hana þann 10. september og fer fyrsta umræða um fjárlagafrumvarp ríkisstjórnar fram 11. og 12. september. Þá er stefnt að því að önnur umræða hefjist 18. nóvember og sú þriðja 2. desember.

Kjördæmadagar verða 29. september til 2. október annars vegar og svo 23. til 26. febrúar 2026.

Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál verður flutt fimmtudaginn 5. mars 2026 og þá skal fyrri umræða um fjármálaáætlun hefjast þriðjudaginn 14. apríl 2026.

Ekki er gert ráð fyrir þingfundum síðustu tvær vikurnar fyrir sveitarstjórnarkosningar sem fram fara 16. maí 2026.

Eldhúsdagsumræður munu fara fram 10. júní 2026 og tveimur dögum síðar, föstudaginn 12. júní 2026 er stefnt að frestun þingfunda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×