Fótbolti

Svein­dís og fé­lagar sendar í frí á meðan HM karla fer fram

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alexandra Jóhannsdóttir reynir hér að hugga Sveindísi Jane Jónsdóttur eftir tapið á móti Finnum í fyrsta leik EM.
Alexandra Jóhannsdóttir reynir hér að hugga Sveindísi Jane Jónsdóttur eftir tapið á móti Finnum í fyrsta leik EM. Getty/Eddie Keogh

Bandaríska kvennadeildin í fótbolta, NWSL, hefur gefið það út að hlé verði gert á deildinni á meðan heimsmeistaramót karla fer fram í Bandaríkjunum á næsta ári.

HM karla í fótbolta fer fram í júní og júlí næsta sumar. Bandaríkin heldur mótið ásamt Mexíkó og Kanada en alls taka 48 þjóðir þátt að þessu sinni. Það átti að öllu eðlilegu að vera spilað í kvennadeildinni á sama tíma. Svo verður ekki heldur mun kvennadeildin gera mánaðarhlé á deildinni sinni.

„Þar sem að sjö af sextán markaðssvæðum í okkar deild eru að hýsa leiki á heimsmeistaramóti karla þá ætlar NWSL að aðlaga leikskipulag sitt að því,“ sagði deildin í yfirlýsingu.

Einnig kemur þar fram að deildin ætlar að leita allra leið til að langa þetta ganga upp við þessar krefjandi aðstæður en það er auðvitað mikið álag á mörgum leikvöngum þessar vikur í júní þegar riðlakeppnin er í fullum gangi.

Íslenska landsliðskonan Sveindís Jane Jónsdóttir gerðist leikmaður Angel City á dögunum og fer til bandaríska liðsins eftir Evrópumótið.

Næsta tímabil byrjar í mars 2026 en það verður samkvæmt þessu ekkert spilað í júní.

Það verða hins vegar leikir í júlí í NWSL deildinni. HM karla lýkur ekki fyrr en 19. júlí en útsláttarkeppnin hefst með 32 liða úrslitum 29. júní.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×