Fótbolti

Portúgalinn Pedro Neto má taka sér frí: „Hann er mjög leiður“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Enzo Maresca mun stappa stálinu í Pedro Neto eða gefa honum frí, hvort sem Pedro kýs.
Enzo Maresca mun stappa stálinu í Pedro Neto eða gefa honum frí, hvort sem Pedro kýs. Carl Recine - FIFA/FIFA via Getty Images

Enzo Maresca, þjálfari Chelsea, mun leyfa Portúgalanum Pedro Neto að taka sér frí frá leik liðsins gegn Palmeiras í átta liða úrslitum heimsmeistaramóts félagsliða, ef hann vill, vegna skyndilegs andláts samlanda hans í gær.

„Hann er mjög leiður, meira en leiður, en við stöndum öll saman og styðjum við Pedro á þessum stundum“ sagði Maresca.

„Ákvörðunin er algjörlega hans, hvort hann spilar. Ég átti spjall við hann í morgun og við styðjum hann í því sem hann ákveður að gera.

Ég veit að það verður rétt ákvörðun, sama hvað“ sagði Maresca einnig eftir að samlandar Pedro Neto, Diogo Jota og André Silva, létust í bílslysi í gærmorgun.

Pedro Neto gæti verið leystur af hólmi af nafna sínum, Joao Pedro, sem var keyptur af Chelsea á miðju móti og er mættur til Bandaríkjanna.

„Hans mál eru aðeins furðuleg, eða öðruvísi, því hann var að koma úr fríi. Hann hélt sér alveg í formi, en það er ekki eins og að æfa með liðinu. Við erum mjög ánægðir með Joao, síðustu tvo daga sem hann hefur verið með okkur, við sjáum til hvort hann fái einhverjar mínútur“ sagði Maresca.

Chelsea mætir Palmeiras, sem er með einn leikmann í eigu Chelsea innanborðs, ungstirnið efnilega Estevao. Leikurinn hefst klukkan eitt eftir miðnætti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×