Fótbolti

Blæs á val The Athletic: „Okkar treyja og við auð­vitað elskum hana“

Sindri Sverrisson skrifar
Sveindís Jane Jónsdóttir skartar hér bláu treyjunni í fyrsta leik á EM, og glæsilegu hári.
Sveindís Jane Jónsdóttir skartar hér bláu treyjunni í fyrsta leik á EM, og glæsilegu hári. Getty/Eddie Keogh

Sveindís Jane Jónsdóttir gefur lítið fyrir þá ákvörðun hins (áður) virta miðils The Athletic að hafa sett íslensku landsliðstreyjuna í neðsta sæti yfir fallegustu búningana á EM í fótbolta í Sviss.

„Þetta er nú bara smekksatriði. Ég veit ekkert hver var á bakvið þetta,“ sagði Sveindís við Vísi fyrir utan hótel íslenska landsliðsins í dag.

Klippa: Sveindís varði íslensku treyjuna

Blaðamenn The Athletic röðuðu liðunum sextán á EM eftir fegurðarmati þeirra á aðalbúningum liðanna.

Blái Puma-búningur íslenska liðsins var þar settur í sextánda og síðasta sætið. Sérstök hvít varatreyja var búin til fyrir mótið en það er aðalbúningurinn sem heillaði ekki bandaríska miðilinn:

„Framleiðendurnir hjá Puma segja að þetta sé hönnun sem hylli stolt og ástríðu íslenska fótboltans. Treyjan eigi að sýna anda íslenska landsliðsins og stuðningsmanna þeirra og vera táknmynd fyrir frammistöðuna inn á vellinum. Það hljómar eins og geggjuð treyja og það er því mikil synd að þær þurfi að vera í þessari,“ stóð í umfjöllun miðilsins.

Sveindís er á allt öðru máli:

„Mér finnst bláa treyjan geggjuð. Þetta er okkar treyja og við auðvitað elskum hana. Ég er bara ekki sammála,“ sagði Sveindís.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×