Fótbolti

Man. City banarnir duttu út á móti brasilísku liði

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hercules fagnar sigurmarki sínu með liðsfélaga sínum Facundo Bernal en Fluminense er komið í undanúrslit á HM félagsliða.
Hercules fagnar sigurmarki sínu með liðsfélaga sínum Facundo Bernal en Fluminense er komið í undanúrslit á HM félagsliða. Getty/Buda Mendes

Brasilíska félagið Fluminense varð í kvöld fyrsta félagið til að tryggja sér sæti í undanúrslitum á heimsmeistaramóti félagsliða i Bandaríkjunum.

Fluminense vann 2-1 sigur á sádi-arabísku meisturunum í Al-Hilal í Orlando á Flórídaskaga.

Al-Hilal hafði slegið út enska stórliðið Manchester City í sextán liða úrslitum keppninnar en Fluminense sló út Inter frá Ítalíu. Þeir létu digurbarkalega eftir þann leik en voru skotnir niður á jörðina í kvöld.

Hercules skoraði sigurmark brasilíska liðsins á 70. mínútu en það var í annað skiptið sem liðið komst yfir.

Martinelli kom Fluminense í 1-0 á 40. mínútu en Marcos Leonardo jafnaði metin á 51. mínútu.

Samuel Xavier fékk reyndar vítaspyrnu í uppbótatíma fyrri hálfleiks en Varsjáin tók hana til baka.

Það var mikil pressa frá Al-Hilal á lokakafla leiksins en Thiago Silva og félagar í vörn Fluminense héldu út.

Fluminense mætir annað hvort Palmeiras eða Chelsea í undanúrslitunum en þau mætast í Charlotte í nótt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×