Innlent

Inga mundaði skófluna við Sól­tún

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Inga Sæland og Halla Thoroddsen forstjóri Sóltúns voru kampakátar.
Inga Sæland og Halla Thoroddsen forstjóri Sóltúns voru kampakátar. Birgir Ísleifur Gunnarsson

Inga Sæland, félags og húsnæðismálaráðherra, tók í dag fyrstu skóflustunguna að stækkun hjúkrunarheimilisins við Sóltún í Reykjavík. Áætlað er að bæta 67 hjúkrunarrýmum við Sóltún og eru verklok áætluð 2027.

Þetta kemur fram í tilkynningu félags- og húsnæðismálaráðuneytisins, þar sem fram kemur að um sé að ræða skref í áætlun ríkisstjórnarinnar um stóraukna uppbyggingu hjúkrunarheimila til að mæta brýnni þörf.

„Þið eruð svo sannarlega að leggja ykkar af mörkum til að við getum komið okkar fólki í skjól,“ er haft eftir Ingu Sæland í tilkynningu. 

„Við ætlum að eyða biðlistum og við sjáum að uppbygging hjúkrunarrýma mun líka losa um flöskuhálsinn á Landspítala og víðar og gjörbreyta þannig stöðunni fyrir sjúkrahúsin okkar. Þetta er forgangsverkefni þessarar ríkisstjórnar, uppbygging á hjúkrunarrýmum,“ sagði Inga.

„Þetta er stórt og mikilvægt skref sem gerir okkur kleift að veita fleira eldra fólki þá umhyggju, virðingu og öryggi sem það á skilið. Við erum þakklát fyrir traustið sem ríkið sýnir okkur með því að fá að taka þátt í uppbyggingu á þjónustu sem brýn þörf er á,“ er haft eftir Höllu Thoroddsen, forstjóra Sóltúns.

Inga Sæland og Halla Thoroddsen, ásamt Jóný Helgadóttur og Anítu Eir Vilmarsdóttur dætrum starfsmanna á Sóltúni.Birgir Ísleifur Gunnarsson

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×