Fótbolti

Sögðu Betu að drulla sér frá Belgíu: „Nýtt fyrir mér“

Aron Guðmundsson skrifar
Elísabet Gunnarsdóttir hefur þurft að hafa hraðar hendur á fyrsta hálfa ári sínu sem þjálfari belgíska kvennalandsliðsins í fótbolta.
Elísabet Gunnarsdóttir hefur þurft að hafa hraðar hendur á fyrsta hálfa ári sínu sem þjálfari belgíska kvennalandsliðsins í fótbolta. Vísir/Getty

Lykla­borðs­riddararnir voru fljótir að láta Elísa­betu Gunnars­dóttur, lands­liðsþjálfara Belgíu í fót­bolta, heyra það og sögðu henni að drulla sér frá Belgíu. Nýr veru­leiki þessa öfluga þjálfara sem segir fólk og fjölmiðla hafa fullan rétt á sínum skoðunum.

Lands­lið Belgíu er í sömu stöðu og Ís­land þegar litið er á mögu­leikana á EM. Liðið kemst ekki áfram í átta liða úr­slitin eftir tap í fyrstu tveimur leikjum sínum en hefur þó sýnt afar jákvæða hluti í sínum leik og eru skemur á veg­ferð sinni komin heldur en ís­lenska lands­liðið.

Elísa­bet tók við stjórnar­taumunum hjá Belgíu í janúar á þessu ári og hefur fengið skamman tíma til þess að koma hug­mynda­fræði sinni á fram­færi og hún fann fljótt fyrir pressunni sem fylgir því að stýra lands­liði hjá þessari miklu fót­boltaþjóð

Pressa getur oft verið af hinu góða en Elísa­bet fékk einnig að kynnast afar slæmri hlið af því sem getur fylgt því starfi að vera lands­liðsþjálfari.

Klippa: Sögðu Betu að drulla sér frá Belgíu

„Það sem að mér brá mest við var hvað ég er búin að fá mikið af skila­boðum frá alls konar fólki sem er að hrauna yfir mig, segja mér hvað ég sé ömur­leg, hvort ég haldi að ég sé Pep Guar­diola og skrifa líka: „Drullaðu þér frá Belgíu,“ segir Elísa­bet í viðtali við íþrótta­deild Sýnar.

„Þetta er nýtt fyrir mér. Ég hef ekki upp­lifað þetta sem þjálfari Kristian­stad eða Vals. Allt í einu er maður komin í þá stöðu að þurfa fara loka á fullt af fólki á sam­félags­miðlum og svo veit maður að fólk getur mögu­lega farið að hafa sam­band fjöl­skyldu sína. Svo hafa fjölmiðlar miklar skoðanir og það er bara eðli­legt. Fólkið í landinu líka. Ég vissi alveg að ég væri að taka við lands­liði, stýra heilli þjóð og fólk hefur fullan rétt á því að hafa skoðanir á því sem að ég er að gera.“

Þessi skila­boð sem þú hefur fengið frá fólki úti í bæ, Jóni og Gunnu, eru þetta bara níðandi skila­boð eða jafn­vel hótanir? Og hvernig varð þér við?

„Ég get ekki sagt að ég hafi verið undir­búin undir þetta. Maður veit alveg að þetta gengur og gerist í heimi fót­boltans og þá kannski sér­stak­lega í karla­boltanum. Ég hef alla­vegana alltaf hugsað það þannig, að við séum laus við þetta í kvenna­boltanum. En ég sé það alveg núna að við erum ekkert laus við þetta í kvenna­boltanum og veit til að mynda að eftir fyrsta leik okkar á EM gegn Ítalíu að margir af mínum leik­mönnum voru að fá ljót skila­boð líka. Maður verður bara að ná að ýta þessu til hliðar því þetta er greini­lega bara eitt­hvað sem er að fara vera hluti af okkar hvers­dags­leika á þessu sviði. Við verðum bara að díla við það líka.“

Dæmin hér fyrir ofan falla hins vegar í skuggann á skemmtilegri upplifun Elísabetar af starfi landsliðsþjálfarans líkt og heyra má af í klippunni hér fyrir neðan:




Fleiri fréttir

Sjá meira


×