Sport

Hélt fótboltabúðir fyrir hinsegin ung­menni

Siggeir Ævarsson skrifar
Khalen Saunders er varnarmaður hjá New Orleans  Saints í NFL deildinni
Khalen Saunders er varnarmaður hjá New Orleans Saints í NFL deildinni Vísir/Getty

Khalen Saunders, sem leikur með New Orleans Saints í NFL deildinni, stóð um helgina fyrir fótboltabúðum fyrir hinsegin ungmenni en þetta var í fyrsta sinn sem spilandi leikmaður í deildinni stendur fyrir slíkum búðum.

Búðirnar voru samstarfsverkefni Khalen og eldri bróður hans Kameron en hann hefur getið sér gott orð sem dansari hjá Taylor Swift.

Khalen er yngstur af fjórum bræðrum en hann lítur mjög upp til Kameron.

„Ég lærði það mjög fljótt af Kameron að taka fólki eins og það er og leyfa þeim að vera þau sjálf í kringum þig. Þannig færðu það einlæga og besta fram hjá fólki.“

Sjálfur hefur Khalen oft upplifað mjög mikla fordóma og eitrað umhverfi í kringum íþróttina sem hann segir að megi oft skrifa á fáfræði. Hann segist vona að búðir eins og þessar hjálpi til við að eyða slíkum fordómum og skapi um leið öruggt umhverfi fyrir unga hinsegin einstaklinga til að taka þátt í íþróttum.

Þá sagðist hann einnig hafa þurft að hlusta á allskonar sleggjudóma frá fólki í aðdragandi búðanna eins og til dæmis að orð eins og „hinsegin“ og „ungmenni“ ættu ekki að heyrast í sömu setningu en hann svarar því af yfirvegun.

„Þetta snýst ekki um að reyna að innræta kynhneigð eða kynvitund hjá börnum. Þetta snýst eingöngu um að kenna börnum að bera virðingu fyrir þeim sem eru hinsegin.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×