Erlent

Bandaríkjamenn refsa sendi­full­trúa SÞ í mál­efnum Palestínumanna

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Francesca Albanese hefur verið mjög afdráttarlaus í gagnrýni sinni gagnvart Ísrael.
Francesca Albanese hefur verið mjög afdráttarlaus í gagnrýni sinni gagnvart Ísrael. AP/Keystone/Salvatore Di Nolfi

Stjórnvöld í Bandaríkjunum tilkynntu í gær að þau hygðust grípa til refsiaðgerða gegn Francescu Albanese, sérlegum sendifulltrúa Sameinuðu þjóðanna sem hefur það á höndum að rannsaka mannréttindabrot á Gasa og Vesturbakkanum.

Bandaríkjamenn höfðu áður freistað þess að fá Albanese vikið úr starfinu.

Albanese er mannréttindalögfræðingur og hefur talað opinskátt um að Ísraelar séu að fremja þjóðarmorð gegn Palestínumönnum á Gasa. Hún nýtur stuðnings fjölda sérfræðinga og mannréttindasamtaka.

Bæði Ísraelar og Bandaríkjamenn hafa hins vegar afdráttarlaust neitað ásökunum Albanese.

Albanese sagðist á samfélagsmiðlum í gær að hún myndi áfram taka afdráttarlausa afstöðu með réttlætinu, eins og hún hefði ávallt gert. Þá greindi Al Jazeera í gær að Albanese hefði í textaskilaboðum lýst refsiaðgerðum Bandaríkjanna sem „mafíu ógnartilburðum“.

Refsiaðgerðir Bandaríkjanna gegn einstaklingum geta meðal annars falið í sér ferðatakmarkanir og frystingu eigna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×