Upp­gjörið: ÍA - KR 1-0 | Skaga­menn náðu fram hefndum

Sesselja Ósk Gunnarsdóttir skrifar
654B4373C3409CDE604901176865C80F829D7323DCE650CC75D21F56400AE9D4_713x0

ÍA tóku á móti KR í fimmtándu umferð Bestu deildar karla í kvöld og höfðu betur í hörkuleik sem lauk með 1-0 sigri heimamanna. Með sigrinum náðu Skagamenn að hefna fyrir 5-0 rasskellingu í fyrri viðurreign liðanna.

Leikurinn fór fram á Elkem vellinum á Akranesi við kjöraðstæður. Gestirnir voru mun sterkari aðilinn til að byrja með. Þeir héldu boltanum nær alfarið í fyrri hálfleik og reyndu að skapa sér færi með skipulögðum sóknum, en Skagamenn vörðust vel og lokuðu á öll svæði. Þrátt fyrir mikla yfirburði skorti KR-ingum ákefð á síðasta þriðjungi vallarins. Staðan því markalaus í hálfleik.

Það var allt annar bragur á heimamönnum í seinni hálfleik. Þeir komu út af miklum krafti og létu meira til sín taka í sóknarleiknum. Það var á 70. mínútu sem fyrsta og eina mark leiksins kom þegar Ísak Máni Guðjónsson slapp einn í gegnum vörn KR-inga eftir laglega sendingu frá Rúnari Má Sigurjónssyni og kom boltanum í netið.

KR-ingar reyndu að svara fyrir sig og sköpuðu sér ágætis færi undir lok leiksins en náðu þó ekki að brjóta niður sterka vörn ÍA manna en þetta var fyrsti leikur KR í sumar þar sem liðið nær ekki að setja boltann í netið.

Lokatölur því 1-0 sigur heimamanna og þrjú mikilvæg stig fyrir Skagamenn sem hafa legið á botni deildarinnar.

Atvik leiksins

Ætli það sé ekki óbeina aukaspyrnan sem KR-ingar fengu í teig heimamanna. Erik Sandberg lét Aron Sigurðarson gjörsamlega heyra það eftir að hann féll í teig Skagamanna. Helgi Mikael Jónasson var ekki ánægður með þá tilburði og spjaldaði Sandberg og þar af leiðandi fengu gestirnir aukaspyrnu inni í teig.

Stjörnur og skúrkar

Árni Marinó Einarsson var frábær í sigri ÍA manna en hann var eins og veggur í markinu.

Stemning og umgjörð

Umgjörðin hérna á Akranesi er til fyrirmyndar, alvöru íslenskt sumarveður og voru stuðningsmenn beggja megin við völlinn. Rúmlega 1000 manns gerðu sér ferð á leikinn og mætti segja að það sé mjög gott miðað við að þeir sem búa á höfuðborgarsvæðinu þurfa að keyra Hvalfjörðinn heim.

Dómarar

Þríeykið Helgi Mikael Jónasson, Eysteinn Hrafnkelsson og Guðmundur Ingi Bjarnason voru flottir í kvöld, flæðið á leiknum var gott og lítið kannski um óþarfa inngrip. Engin stór vafamál að mínu mati.

Viðtöl

Lárus Orri Sigurðsson: „Lítið skref í átt að því sem við ætlum að gera“

„Í fyrri hálfleik vorum við að skila varnarleiknum vel. Það var góður talandi í liðinu og fínar færslur. Það sem vantaði var að halda boltanum og þegar við unnum boltann fórum við bara í að senda hann. Við fórum yfir þetta í hálfleik og ákváðum að þegar við myndum vinna boltann að við myndum ná boltanum undir betra „control“ áður en við færum í eitthverjar úrslitasendingar og það skilaði sér.“

„Ég var ánægðastur með einbeitinguna og menn voru mjög einbeittir allan tímann. Þegar þú ert að spila á móti svona góðu sóknarliði eins og KR er, þá þarf að vera talandi og þú þarft að vita hvað er að gerast í kringum þig og hafa einbeitinguna uppá tíu í 95 mínútur. Það er mikill vilji og hungur í hópnum og það var gaman að sjá hversu mikið menn börðust fyrir hvern annan.“

„Við féllum ekki í síðustu viku og við héldum okkur ekki uppi núna, núna er stutt vika og svo er erfiður útileikur á móti KA á laugardaginn. Við fögnum aðeins í kvöld en svo er bara einbeiting á KA leikinn. Þetta er eitt skref í átt að því sem við ætlum að gera, þetta var sætur sigur en þetta er bara lítið skref.“

Ísak Máni Guðjónsson: „Við erum komnir í gang“

„Mér líður hrikalega vel eftir þennan leik, við vissum að þetta yrði erfiður leikur og að þetta yrði eltingaleikur en við vinnum okkar vinnu og það var nóg.“ Sagði markaskorarinn Ísak Máni Guðjónsson sem kom inn á völlinn á 68. mínútu og skoraði eina mark leiksins tveimur mínútum síðar.

„Lárus sagði mér að nýta alla mína orku og hann veit að ég er með mikla orku og get hlaupið mikið og hann sagði mér að sprengja mig út.“

„Þetta er stór sigur fyrir okkur, þetta þýðir mikið fyrir okkur og stuðningsmennina okkar sem mæta á leikinn. Mér finnst við vera komnir í gang og ég held að þetta hafi verið snúningsleikurinn okkar.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira