Skoðun

Í nafni „sann­girni“ brenndi ríkis­stjórn 230 milljörðum – líf­eyrir lands­manna fór á bálið

Elliði Vignisson skrifar

Á forsendum sanngirni hefur ríkisstjórn okkar Íslendinga nú valdið skaða fyrir skráð sjávarútvegsfyrirtæki upp á 74 milljarða með samþykkt nýrra laga um skatta á sjávarútveg. Heimfært á sjávarútveginn allan hefur ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur valdið verðmætarýrnun upp á 230 milljarða. Allt í nafni sanngirni.

Flateyringurinn knái, Ragnar Már Gunnarsson, hefur gert úttekt á þessari stöðu. Í ljós hefur komið á rétt í kringum upphaf málsins voru skráð sjávarútvegsfyrirtæki metin á 404 milljarða. Í dag hafa verðmætin fallið niður í 331 milljarð eða um 74 milljarða.

Meðal þess sem haldið var fram var að málið snérist um 5 fjölskyldur. Þetta fullyrtu talsmenn ríkisstjórnar vitandi að áætluð eignarhlutdeild lífeyrissjóða í Brim er um 38%, Ísfélaginu um 11% og 24% í Síldarvinnslunni. Nú liggur fyrir að bara tjón lífeyrissjóða vegna eignarhalds þeirra í þessum þremur skráðu sjávarútvegsfyrirtækjum nema 18 milljörðum frá 24. mars á þessu ári. Sanngirni ríkssjórnar er því lífeyrisskerðing almennings. Það sem ríkisstjórn kallar „sérhagsmuni“ eru meðal annars lífeyrisréttindi almennings og atvinnuöryggið á landsbyggðinni.

Núna þegar þessi ríkisstjórn hefur setið í hálft ár hefur hún valdið beinni verðmætarýrnun upp á 5% af landsframleiðslu (GDP). Það er sama hlutfall og Nató ríkin eru að reyna að verja í varnarmál. Mér er til efs að slíkt eigi sér sögulega viðlíkingu á friðatímum. Gleymum ekki að verið er að undirbúa fleiri skaðleg frumvörp. Dettur einherjum í hug að vaxtalækkunarferlið haldi áfram?

Höfundur er bæjarstjóri Ölfuss.




Skoðun

Sjá meira


×