Innlent

Hefði sagt nei: Sumar­frí bæjar­full­trúa opnaði fyrir endurskipulag á Nónhæð

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Teikning af húsunum þremur á Nónhæð.
Teikning af húsunum þremur á Nónhæð. Facebook/Nónhæð ehf.

Meirihluti bæjarráðs Kópavogs samþykkti í síðustu viku, með þremur atkvæðum gegn tveimur, að fallast á endurupptöku ákvörðunar bæjarstjórnar frá því í fyrra, þegar hún hafnaði því að auglýsa tillögu um breytt skipulag lóðanna Nónsmára 11-17 og Nónsmára 1-9.

Athygli vekur að málið komst aðeins í gegn vegna þess að Hjördís Ýr Johnson, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, var í fríi og þurfti að kalla inn varamann.

Varamaðurinn, Elísabet Berglind Sveinsdóttir, greiddi atkvæði með flokksbróður sínum Andra Steini Hilmarssyni og Framsóknarmanninum Orra Vigni Hlöðverssyni, formanni bæjarráðs.

Þegar málið var tekið fyrir í bæjarstjórn 12. mars 2024 hafnaði meirihluti bæjarfulltrúa erindinu um deiliskipulagsbreytinguna, með átta atkvæðum gegn einu atkvæði Andra Steins. 

Orri Vignir sat hjá.

Hjördís Ýr var meðal þeirra sem greiddu atkvæði á móti og staðfesti í samtali við fréttastofu í gær að afstaða hennar væri óbreytt og hún hefði þannig greitt atkvæði á móti tillögunni ef hún hefði setið fundinn í síðustu viku.

Prinsipp að virða niðurstöður samráðsins

Að sögn Hjördísar er um að ræða prinsippmál; hún bendir á að ferlið við skipulag á Nónhæð hafi verið óvenju viðamikið og samráð við íbúa og aðra umfram það sem kveðið sé á um í lögum.

„Ég hef sagt það opinberlega og það er ekkert leyndarmál að ég er þeirrar skoðunar að það eigi að standa við þetta,“ segir Hjördís. „Ég er reyndar líka þeirrar skoðunar að svæðið hefði þolað meira byggingamagn en þetta var niðurstaðan og ég lít bara svo á að það eigi að virða það.“

Hjördís Ýr hefði greitt atkvæði gegn tillögunni hefði hún verið á fundinum.

Umræður um skipulag á svæðinu hafa staðið yfir allt frá því 2007 en bæjarráð samþykkti breytingar á aðal- og deiliskipulagi árið 2017, eftir mikið samráð og athugasemdir frá íbúðasamtökunum Betri Nónhæð, þess efnis að þar mætti byggja 140 íbúðir í fjölbýlishúsum á þremur reitum.

Lóðarhafinn, Nónhæð ehf.,  sótti í kjölfarið um breytingar á skipulaginu, þannig að íbúðum yrði fjölgað um tíu og húsin hækkuð um eina hæð, en fékk synjun bæði hjá skipulagsráði og bæjarráði.

Hann virðist hins vegar ekki hafa látið segjast og stendur enn í stappi við bæjaryfirvöld um breytingar á tveimur bygginganna, þrátt fyrir að þær hafi átt að vera tilbúnar árið 2022.

Að sögn Hjördísar hefðu hugmyndir framkvæmdaaðilans ekki teljandi áhrif á nærliggjandi byggð en hún segir leitt að framkvæmdum sé ekki lokið, enda vöntun á húsnæði. „Þetta er komið langt yfir tíma,“ segir hún. „Vonandi er hægt að finna einhverja lausn. Það vantar íbúðir.“

Minnihlutinn hefur áhyggjur af fordæmisgildinu

Í bókun meirihlutans er lögð áhersla á að ákvörðun um að heimila endurupptöku og auglýsa boðaðar breytingar feli ekki í sér samþykki á breytingu á deiliskipulagi. 

„Tilgangur auglýsingar er að kynna tillögu að nýju eða breyttu skipulagi fyrir þeim sem kunna að eiga hagsmuni og gefa þeim færi á að koma með athugasemdir,“ segir í bókuninni.

Minnihlutinn segir hins vegar um að ræða vafasamt fordæmi enda, svo vitnað sé í aðra bókun meirihlutans, byggi endurupptaka í málinu á því að „ákveðnir þættir sem lágu fyrir í gögnum en voru ekki dregnir fram með nægilegum hætti gætu hafa haft áhrif á afstöðu bæjarfulltrúa við fyrri afgreiðslu“.

Þarna er verið að vísa til upplýsinga um íbúðagerð, sem lá fyrir á fyrri stigum málsins en var ekki gert hátt undir höfði í umsókn lóðarhafa um deiliskipulagsbreytingu.

„Undirrituð lýsa furðu á afgreiðslu málsins,“ segir í bókun minnihlutans. „Sé það ófullnægjandi kynning að birta gögn með máli án þess að leggja sérstaklega áherslu á þau, sérstaklega þegar sem um er að ræða gögn sem ættu ekki að hafa áhrif á afgreiðslu málsins af hálfu bæjarins, er hætt við í samræmi við þessa niðurstöðu að fleiri ákvarðanir bæjarins séu ófullnægjandi þar sem sjaldnast eru allir hlutir málsins reifaðir.“

„Það er skylda bæjarstjórnar að gæta réttaröryggis“

Málið er um margt áhugavert en fyrr á þessu ári óskaði bæjarráð eftir mati á upplýsingum sem Nónhæð ehf. lagði fram um skert gæði íbúða í húsinu og hvort þær upplýsingar hefðu legið fyrir þegar bæjarstjórn hafnaði því að auglýsa tillögu um breytt skipulag.

Bæjarritari óskaði eftir mati skipulagsfulltrúa, sem sagði lóðarhafa ekki hafa vakið sérstaka athygli á þessu atriði en teikningar hefðu fylgt með sem sýndu að íbúðir snéru einungis í eina átt. 

„Það þykir athyglisvert að lóðarhafi hafi ekki gert frekari grein fyrir þessu í umsókninni eða í rökstuðningi sínum. Í umsókninni var í stað þess lögð áhersla á að hækkunin hefði ekki neikvæð umhverfisáhrif, að hlutföll hússins væru eðlilegri með þremur hæðum og að breytingin bætti gæði byggðarinnar og kæmi til móts við íbúðaþörf,“ segir í bréfi bæjarritar til bæjarráðs.

Skipulagsfulltrúi sagði það enn fremur á ábyrgð hönnuða að koma íbúðum þannig fyrir að þær uppfylltu reglugerðir og þá virtist mögulegt að endurskipuleggja íbúðirnar þannig að dagsbirta bærist úr tveimur áttum.

Bæjarritari komst í framhaldinu að þeirri niðurstöðu að upplýsingar um annmarka á gæðum íbúða hefðu legið fyrir í gögnum málsins þegar þau lágu fyrir bæjarstjórn. Lóðarhafi hafi hins vegar ekki lagt sérstaka áherslu á þá.

„Af framangreindu má leiða að upplýsingar um annmarka á íbúðagerð gagnvart skipulagsskilmálum hafi legið fyrir, þó að ekki hafi verið sérstaklega vakin athygli á þeim. Því er ekki útilokað að slíkur upplýsingaskortur hafi orðið til þess að kjörnir fulltrúar hafi ekki gert sér fyllilega grein fyrir þessum atriðum við ákvörðunartöku. Það er því ekki útilokað að afstaða bæjarstjórnar hefði orðið önnur, ef sjónarmiðin hefðu verið gerð skýrari frá upphafi,“ segir bæjarritari.

Minnihlutinn gagnrýnir þessa niðurstöðu harðlega.

„Endurupptaka stjórnsýslumáls samkvæmt 24.gr. stjórnsýslulaga er leið til að leiðrétta rangar ákvarðanir. Réttaröryggi krefst þess að stjórnsýsluákvarðanir séu að jafnaði endanlegar nema sterk rök réttlæti breytingar, svo sem verulegir formgallar eða ný gögn sem hefðu breytt niðurstöðu málsins. Deiliskipulag er veigamikil stjórnsýsluákvörðun. Til að viðhalda trausti almennings á stjórnvöldum þarf slík ákvörðun að njóta virðingar,“ segir í bókun minnihlutans.

„Það er skylda bæjarstjórnar að gæta réttaröryggis og því aðeins á að endurupptaka stjórnsýsluákvörðun að nýjar upplýsingar eða sönnunargögn komi fram, form- eða efnisannmarkar séu á ákvörðun eða ákvörðunin hafi byggst á bersýnilega röngum lagalegum eða efnislegum forsendum. Staðfest er með fyrirliggjandi mótmælum íbúa í grenndinni að afstaða þeirra til deiliskipulagsins er óbreytt frá því að málsmeðferð sem var undanfari deiliskipulagsins var leidd til lykta. Í þessu máli eru skilyrði til þess að endurupptaka stjórnsýsluákvörðun alls ekki fyrir hendi.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×