Erlent

Lýsa yfir her­lögum í Taí­landi

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Íbúar í Taílandi flýja heimili sín vegna átakanna.
Íbúar í Taílandi flýja heimili sín vegna átakanna. AP

Yfirvöld í Taílandi hafa lýst yfir herlögum í átta héruðum landsins vegna átaka á milli þeirra og Kambódíu. Yfir hundrað þúsund íbúar í Taílandi hafa yfirgefið heimili sín.

Yfir 130 þúsund íbúum Taílands var gert að yfirgefa heimili sín en alls hafa fimmtán Taílendingar látist í átökunum, þar á meðal átta ára strákur. Yfirvöld í Kambódíu hafa ekki greint frá hvort einhver sé slasaður eða látinn eftir árásirnar. Í frétt NDTV segir að einn hafi látist í héraðinu Oddar Meanchey í Kambódíu og fimm aðrir væru slasaðir.

 Málið varðar landamæri landamæri landanna tveggja sem eru rúmir átta hundruð kílómetrar. Átökin hófust á fimmtudag en mikil spenna hefur verið á milli landanna tveggja síðan í maí þegar kambódískur hermaður var drepinn af hermönnum Taílands. 

Á miðvikudag slösuðust fimm taílenskir hermenn eftir að jarðsprengja sprakk og ákváðu taílensk yfirvöld að sendiherra þeirra í Kambódíu skildi snúa aftur heim. Þau saka kambódíska herinn um að hafa komið jarðsprengjunni fyrir nýlega. 

Það var þá á fimmtudag þegar Taílendingar skutu eldflaug til Kambódíu. Þeir segjast hafa verið að skjóta á hersvæði í landinu en einhverjar flaugar lentu á svæðum almennra borgara.

Nú hafa taílensk yfirvöld lýst yfir herlögum í átta héruðum sem liggja að landamærum landanna tveggja. Þjóðaröryggisráð Sameinuðu þjóðanna heldur einnig neyðarfund í dag vegna málsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×