Íslenski boltinn

Með átta mörk og sex stoð­sendingar í sama leiknum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Patrekur Orri Guðjónsson fagnar eftir leik. Hann bjó til fjórtán mörk fyrir liðið sitt.
Patrekur Orri Guðjónsson fagnar eftir leik. Hann bjó til fjórtán mörk fyrir liðið sitt. KF Álafoss

Patrekur Orri Guðjónsson átti ótrúlegan leik í íslensku F-deildinni í fótbolta um helgina.

Patrekur Orri og félagar í Álafoss liðinu unnu þá 17-1 sigur á Reynir Hellissandi í A-riðli fimmtu deildar.

Það er ekki oft sem leikir í íslensku F-deildinni komast í fréttirnar en frammistaða Patreks Orra gaf svo sannarlega ástæðu til þess.

@kf_alafoss

Knattspyrnufélagið Álafoss frá Mosfellsbæ segir frá afrekum leikmannsins síns á samfélagsmiðlum.

Patrekur Orri átti nefnilega þátt í fjórtán af sautján mörkum liðsins en leikurinn fór fram á Malbikstöðinni að Varmá.

Patrekur Orri skoraði átta mörk sjálfur en gaf líka sex stoðsendingar á félaga sína.

Staðan var orðin 2-0 þegar Patrekur Orri skoraði fyrsta markið sitt á 19. mínútu en sextán mínútum síðar var hann kominn með fernu.

Patrekur Orri skoraði síðan fimmta markið sitt á 71. mínútu, sjötta markið á 76. mínútu, sjöunda markið á 82. mínútu en áttunda og síðasta markið sitt skoraði hann síðan á 88. mínútu.

Alexander Aron Davorsson skoraði fernu fyrir Álafoss og Davíð Ívarsson var með þrennu.

Álafoss er efst í deildinni með níu sigra í ellefu leikjum og hefur skorað 50 mörk í þessum leikjum.

Patrekur Orri er ekki markahæstur í deildinni þrátt fyrir að vera kominn með þrettán mörk því liðsfélagi hans Alexander Aron er enn einu maarki á undan honum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×