Erlent

Vill flýta skýrslu­töku Murdochs

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Fjölmiðlarisinn Rupert Murdoch og Donald Trump Bandaríkjaforseti.
Fjölmiðlarisinn Rupert Murdoch og Donald Trump Bandaríkjaforseti. EPA

Donald Trump Bandaríkjaforseti vill að skýrslutaka fjölmiðarisans Rupert Murdoch fari fram eins fljótt og hægt er. Trump höfðaði mál gegn Murdoch og fjölmiðilinum Wall Street Journal eftir að dónalegt afmæliskort, undirritað af Trump, til athafnamannsins Jeffrey Epstein var birt.

Lögfræðingar Trumps sækjast eftir því að skýrslutakan fari fram sem fyrst vegna aldurs Murdoch en hann er 94 ára gamall. Murdoch er eigandi fyrirtækisins News Corp sem á, meðal fjölda annarra, miðilinn Wall Street Journal. Einnig kemur fram að Murdoch hafi átt við nokkra heilsukvilla að stríða undanfarið.

Málið hófst er miðilinn birti textabrot úr afmæliskorti sem Trump á að hafa skrifað í tilefni fimmtíu ára afmælis Epstein árið 2003. Auk kveðjunnar teiknaði hann mynd af nakinni konu þar sem skapahárin voru undirritun forsetans, Donald.

„Til hamingju með afmælið... og megi allir dagar vera annað dásamlegt leyndarmál,“ stóð í kortinu. 

Trump neitar staðfastlega að hafa skrifað kortið og sagði hann einnig að hann kynni ekki að teikna, því hefði hann ekki getað teiknað myndina af nöktu konunni. Samt sem áður gaf hann góðgerðasamtökum myndir sem hann hafði teiknað, til að selja á uppboðum til styrkar þeirra. 

Hann höfðar því meiðyrðamál gegn Murdoch, News Corp, Wall Street Jounral og fleiri vegna birtingarinnar og krefst hann tíu milljarða dollara, eða rúma 1,2 billjónir íslenskra króna samkvæmt umfjöllun Reuters.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×