Erlent

Hvatti ríki til að stuðla að stjórnarskiptum í Rúss­landi

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Selenskí hefur hvatt ríki til að grípa til aðgerða til að stuðla að stjórnarskiptum í Rússlandi.
Selenskí hefur hvatt ríki til að grípa til aðgerða til að stuðla að stjórnarskiptum í Rússlandi. Getty/Antonio Masiello

Vólódimír Selenskí Úkraínuforseti hefur hvatt bandamenn sína til að stuðla að stjórnarskiptum í Rússlandi. Hann telur að þvinga megi Rússa til að stöðva stríðsrekstur sinn í Úkraínu.

Þetta kom fram í ræðu forsetans á ráðstefnu sem haldin var til að marka þau tímamót að 50 ár eru liðin frá Helsinki-sáttmálanum, sem miðaði að því að draga úr spennu milli Sovétríkjanna og Vesturlanda.

Að minnsta kosti 26 létust í umfangsmikilli dróna- og eldflaugaárás Rússa á Kænugarð í gærkvöldi, þar af þrjú börn. Yfir 150 særðust, þar á meðal að minnsta kosti sextán börn og sex lögreglumenn.

Donald Trump Bandaríkjaforseti lýsti vanþóknun sinni á aðgerðum Rússa í gær og sagði refsiaðgerðir í undirbúningi. „Rússar... þetta er ógeðslegt sem þeir eru að gera,“ sagði forsetinn. Hann bætti þó við að hann vissi ekki hvort þvingunaraðgerðir hefðu nokkur áhrif á Vladimir Pútín Rússlandsforseta. 

Bandaríkjastjórn hefur gefið síðarnefnda frest til 8. ágúst til að ganga til viðræðna til að forðast frekari aðgerðir að hálfu Bandaríkjanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×