Handbolti

Guð­jón Valur orðaður við Kiel

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðjón Valur Sigurðsson hefur þjálfað VfL Gummersbach í fimm ár og er með samning í tvö ár í viðbót.
Guðjón Valur Sigurðsson hefur þjálfað VfL Gummersbach í fimm ár og er með samning í tvö ár í viðbót. Getty/Tom Weller

Guðjón Valur Sigurðsson hefur verið að gera flotta hluti með handboltalið Gummersbach og hefur þegar sannað sig sem þjálfari í erfiðustu deild í heimi. Nú er farið að orða hann við eitt stærsta handboltafélag heims.

Stórlið Kiel gæti verið að leita þjálfara næsta sumar ef Filip Jícha hættir en hann hefur verið þjálfari liðsins frá árinu 2019. Samningur Jícha rennur út eftir næsta tímabil

Nú er farið að orða Guðjón Val við stöðuna en samningur hans við Gummersbach rennur ekki út fyrr en árið 2027.

Guðjón Valur setti handboltaskóna upp á hillu árið 2020 tók við liði Gummersbach. Þá var liðið í B-deildinni en undir hans stjórn komst liðið upp í efstu deild og hann var kosinn þjálfari ársins á fyrsta tímabili í Bundesligunni.

Jícha tók einmitt við liðinu af Alfreð Gíslasyni eftir að hafa áður verið aðstoðarmaður hans.

Alfreð var þó ekki fyrsti Íslendingurinn til að þjálfa Kiel því Jóhann Ingi Gunnarsson þjálfaði liðið frá 1983 til 1986.

Það gerði þó enginn betri hluti en Alfreð sem gerði Kiel sex sinnum að Þýskalandsmeisturum. Kiel vann líka Meistaradeildina tvisvar, varð heimsmeistari einu sinni og vann þýska bikarinn sex sinnum.

Það væri gaman að sjá þriðja Íslendinginn þjálfa þetta stórlið og yrði um leið enn einn vitnisburðurinn um hæfni íslensku handboltaþjálfaranna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×