Innlent

Allir blása í Landeyjahöfn

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Lögreglan stendur vaktina í Landeyjahöfn.
Lögreglan stendur vaktina í Landeyjahöfn. Vísir/Magnús Hlynur

Lögreglan á Suðurlandi fylgist með umferð í Landeyjahöfn en Þjóðhátíðargestir flykkjast nú í land. Enginn bílstjóri kemst af svæðinu án þess að vera athugaður af lögreglu.

„Nú eru Þjóðhátíðargestir að koma til lands og í nótt og í morgun hefur verið talsvert að gera hjá lögreglunni í Landeyjahöfn og það hefur verið eftirlitspóstur alla helgina en núna er fyrst mikið að gera hjá þeim,“ segir Þorsteinn M. Kristinsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á Suðurlandi, í samtali við fréttastofu.

„Það kemst enginn þar í gegn nema að vera látinn blása og er kannaður.“ 

Þorsteinn býst við talsverðri umferð en ekki snýr fólk einungis aftur til síns heima úr Vestmannaeyjum heldur ferðalangar alls staðar að. 

„Við verðum með allt okkar lið úti. Það verða umferðapóstar hér og þar fyrir utan þann sem er í Landeyjahöfn þannig að það verður fylgst vel með í dag enda búumst við við því að verði meiri umferð í dag heldur en dagana á undan.“

Hátíðin Flúðir um Versló er einnig í umdæmi lögreglunnar á Suðurlandi. Þorsteinn segir eina líkamsárás hafa verið tilkynnta til lögreglu. Málið var þess eðlis að enginn var vistaður í fangaklefa. Að öðru leiti var mikill erill hjá lögreglu, en ekkert sem hafi komið á óvart.

„Það var erill í nótt hjá lögreglu en ekkert svona meira en er á venjulegri helgi.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×