Viðskipti innlent

„Ekkert Viking eða Gull“ á nýjum stað í B5

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Kabarett fjöllistahús opnar senn í Bankastræti.
Kabarett fjöllistahús opnar senn í Bankastræti. Vísir

Kraftbar og veitingahús opnar senn í sögufrægu næturlífshúsnæði við Bankastræti fimm. Staðurinn, sem ber nafnið Kabarett, er í senn fjöllistahús og vettvangur fyrir hinar ýmsu listir. 

Bræðurnir Sverrir og Sigurjón Garðarssynir standa að baki nýja staðnum. Í samtali við fréttastofu segir Sverrir hugmyndina hafa sprottið hjá bróður sínum, sem á hlut í brugghúsinu Hella bjór, sem bruggar meðal annars mjöð.

„Það var svo mikil eftirspurn eftir að fá mjöðinn á krana en brugghúsið er á Hellu og hann var hvergi í boði í Reykjavík á krana. Þannig að þetta var hans andsvar við því, hann ákvað að vera með sinn eigin stað, með sinn eigin mjöð,“ segir Sverrir.

Loka á miðnætti

Auk mjaðarins verða tuttugu bjórtegundir á krana til sölu á Kabarett. Bjórarnir eru að sögn Sverris allir frá minni brugghúsum.

„Við erum ekki samningsbundnir við hvorki Ölgerð né Coca Cola, þannig að við stjórnum alveg sjálfir hvað verður í boði á barnum. Ekkert Víking eða Gull neitt.“

Pride-fánum var komið fyrir í gluggum nýja staðarins í tilefni dagsins. Aðsend

Sverrir segir þá bræður hafa fyrst sýnt húsnæðinu áhuga í fyrra en leigusalinn verið efins eftir hina ýmsu atburði sem hafa gengið á í húsnæðinu undanfarin ár. Má þar nefna hnífstunguárás í staðnum Bankastræti Club, sem var og hét, í lok árs 2022. 

Í ár hafi eigandi húsnæðisins þó fallist á tilboð þeirra. Til að byrja með verður staðurinn opinn mun skemur en margir aðrir vínveitingastaðir, til miðnættis. 

„Það verður lokað snemma en það kemur vonandi ekki að sök,“ segir Sverrir. 

Sverrir segir undirbúning í fullum gangi. Aðsend

Auk bjórs og mjaðar verður hægt að panta sér hamborgara, kjúklingavængi og annað barsnakk á staðnum. Þá er staðurinn, líkt og fyrr segir, fjöllistahús. Bræðurnir hafa byggt svið inni á staðnum sem er hugsað fyrir hvers kyns listir. 

„Þetta svið er fyrir hvaða list sem er, hvort sem það er tónlist, uppistand, open mic kvöld, ljóðakvöld, bara hvað sem er. Við ætlum ekki að mismuna neinum í þeim efnum,“ segir Sverrir, sem reiknar með að opna dyrnar að Kabarett í september. 

Ekki gengið áfallalaust fyrir sig

Bankastræti 5 hefur spilað stórt hlutverk í íslensku næturlífi frá því að skemmtistaðurinn B5 var rekinn í húsnæðinu. Í kórónuveirufaraldrinum lögðu eigendur staðarins upp laupana og World Class erfinginn Birgitta Líf Björnsdóttir tók við lyklunum að húsnæðinu. 

Staðurinn hlaut þá nýtt nafn, Bankastræti Club, og opnaði sumarið 2021. Bankastræti Club var rekinn til sumars 2023. 

Í millitíðinni var áðurnefnd stunguárás framin á staðnum, þegar hópur grímuklæddra manna æddi inn á staðinn, réðst að tveimur og stakk. Málið varð eitt fjölmennasta dómsmál Íslandssögunnar, en athygli vakti að réttarhöld í málinu fóru fram í veislusal í Gullhömrum. 

Eftir að Bankastræti Club ævintýrinu lauk tók viðskiptamaðurinn Sverrir Einar Eiríksson við lyklunum með þá hugmynd að opna gamla góða B5 í upprunalegri mynd. Það gekk ekki betur en svo að lögbann var lagt við notkun vörumerkisins B5 við reksturinn, þar sem vörumerkið væri í eigu KG ehf.

Sverrir Einar greip þá til þess ráðs að fjarlægja fimmuna í nafninu þannig að staðurinn hét um stund einungis B. 

Í maí í fyrra greindi Sverrir síðan frá því að staðnum yrði lokað fyrir fullt og allt og hann ætlaði að einbeita sér að skemmtistaðnum Exit, einnig í hans eig, af fullum þunga.

Síðan þá hefur húsnæðið að stærstum hluta staðið autt, fyrir utan þegar Framsóknarflokkurinn opnaði þar kosningamiðstöð unga fólksins, „XB5“. Athygli vakti þó að ungum Framsóknarmönnum hafði láðst að sækja um vínveitingaleyfi, og því var einungis boðið upp á snakk og gos í rými sem óhætt er að segja að flestir tengi við bjórdrykkju. Hvort bjórleysið hafi haft áhrif á gengi flokksins í kosningunum skal látið liggja milli hluta. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×