Erlent

Greta Thunberg siglir á ný til Gasa

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Greta Thunberg er sænskur loftslagsaðgerðasinni.
Greta Thunberg er sænskur loftslagsaðgerðasinni. EPA

Loftslagsaðgerðasinninn Greta Thunberg er meðal þátttakanda Global Sumud Flotilla sem hyggjast sigla til Gasastrandarinnar. Þetta er í annað sinn sem hún heldur af stað til Gasa en síðast var hópurinn stöðvaður af Ísraelsher.

„Við ætlum að sigla aftur af stað til að stöðva herkvína,“ segir Thunberg í myndskeiði sem hún birti á samfélagsmiðlum. Í myndskeiðinu er fjöldi aðgerðasinna sem skiptast á að lýsa áætlun hópsins og biðla til almennings að styðja við bak þeirra.

„Og í þetta skipti ætlum við að sigla með tylft af bátum,“ segir Thiago Ávila, brasilískur aðgerðasinni, sem var einnig um borð í fyrri ferð hópsins.

Tólf bátar sigla af stað frá Spáni þann 31. ágúst og bætast tólf aðrir í hópinn í Túnis þann 4. september. Einnig stendur til að koma af stað viðburðum í um 44 löndum á sama tíma til að mótmæla gjörðum Ísraelshers og sýna samstöðu með Palestínubúum.

„Aldrei í sögunni hafa jafn margir blaðamenn, starfsmenn sameinuðu þjóðanna og heilbrigðisstarfsmenn verið drepnir,“ segir Liam Cunningham, leikarinn best þekktur sem Ser Davos Seaworth í Game of Thrones.

Á vefsíðu Global Sumud Flotilla má sjá lista yfir hvar fyrirhugaðar aðgerðir verða en þar á meðal eru Noregur, Sviss, Bandaríkin, Indónesía og Kólumbía.

Fyrri ferð Thunberg hófst í lok maí en henni lauk 8. júní þegar Ísraelsher stöðvaði för bátsins Madleen og flutti alla farþega bátsins aftur til síns heima. Thunberg varð fræg þegar hún hóf skólaverkföll í heimalandi sínu Svíþjóð til að setja þrýsting á stjórnvöld að beita sér í þágu loftslagsaðgerða. Fjöldi nemenda tóku þátt í mótmælunum á hverjum föstudegi vegna aðgerðarleysi stjórnvalda í sínum heimalöndum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×