Innlent

Ó­prúttnir aðilar hóta rofinni rafmagnstengingu berist greiðsla ekki strax

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Lovísa Árnadóttir er upplýsingafulltrúi Samorku.
Lovísa Árnadóttir er upplýsingafulltrúi Samorku. Vísir/Samsett

Óprúttnir aðilar hrella nú landsmenn með því að hóta að rjúfa rafmagnið heima hjá þeim. Um er að ræða svikapóst sem viðskiptavinum Veitna og HS Veitna hefur borist sem varar við liðnum greiðslufresti á rafmagnsreikningnum.

Lovísa Árnadóttir, upplýsingafulltrúi Samorku hagsmunasamtaka orkufyrirtækja, staðfestir að pósturinn sé alls ekki á vegum veitufyrirtækja eða raforkusala.

Samkvæmt póstinum er fólk beðið um að skrá sig inn á „örugga greiðslusíðu“ til að greiða reikninginn og forðast það að rafmagnstengingin rofni.

Þessi póstur hefur borist mörgum viðskiptavinum raforkuveitna.Samorka

„Ef við fáum ekki greiðslu tafarlaust gæti rafmagnsþjonusta þín verið rofin. Endurtenging mun hafa í för með sér aukakostnað,“ er hótað í svikapóstinum.

Samorka biðlar til viðskiptavina að smella alls ekki á hlekkinn, gefa alls ekki upp kortanúmer eða skrá sig inn með nokkrum hætti og gefa alls ekki upp persónu- eða fjárhagsupplýsingar. Fólk er hvatt til að hafa samband við þjónustuver síns veitufyrirtækis ef vafi leikur á um áreiðanleika tölvupósta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×