Upp­gjörið: Stjarnan - Vestri 2-1 | Andri Rúnar gerði gömlu fé­lögunum grikk

Sesselja Ósk Gunnarsdóttir skrifar
Vestramenn hafa átt afar spennandi sumar en lutu í lægra haldi í dag.
Vestramenn hafa átt afar spennandi sumar en lutu í lægra haldi í dag. vísir/Diego

Stjarnan tók á móti Vestra í 19. umferð Bestu deildar karla á Samsungvellinum í Garðabæ í dag. Heimamenn fóru með sigur af hólmi í hörkuleik sem endaði 2-1, og tryggðu sér þar með dýrmæt þrjú stig í efri hluta deildarinnar.

Gestirnir frá Ísafirði byrjuðu af krafti og þurftu áhorfendur ekki að bíða lengi eftir fyrsta marki leiksins, en það kom á 3. mínútu þegar Anton Kralj skoraði laglegt mark eftir frábæra fyrirgjöf frá Ágústi Eðvald Hlynssyni.

Stjarnan jafnaði metinn eftir klaufaleg mistök í vörn Vestra. Sergine Fall reyndi sendingu til baka á Guy Smit í markinu. Andri Rúnar Bjarnason komst fyrir sendinguna, klobbaði Guy Smit og lagði boltann í netið.

Andri Rúnar var aftur á ferðinni skömmu síðar og kom boltanum í netið á móti uppeldis félaginu eftir góða fyrirgjöf frá Jóhanni Árna Gunnarssyni. Stjarnan leiddi, 2-1, í hálfleik.

Bæði lið voru ógnandi í síðari hálfleik en Vestri töluvert líklegri til þess að skora. Þeir náðu að koma boltanum einu sinni í netið en markið fékk ekki að standa og var dæmt af vegna rangstöðu.

Stjarnan heldur áfram að sækja stig og sitja í 4. sæti með 31 stig, aðeins einu stigi á eftir Blikum og Víkingi R, sem eiga þó leik til góða.

Atvik leiksins

Markið sem var tekið af Vestra, Guðmundur Ingi, aðstoðardómari metur sem svo að Vladimir Tufegdzic hafi verið fyrir innan og haft áhrif á Árna Snæ, markvörð Stjörnunar.

Stjörnur og skúrkar

Andri Rúnar Bjarnason maður leiksins með tvö mörk, alvöru framherji sem er góður í að slútta.

Ágúst Eðvald Hlynsson var öflugur í liði Vestra og með eina stoðsendingu. Hefðu verið tvær ef jöfnunarmarkið hefði fengið að standa.

Stemning og umgjörð

Það er alltaf góð stemning hérna í Garðabænum, góð mæting hjá stuðningsmönnum beggja liða en gestirnir virðast hafa gleymt trommunum heima.

Dómarar

Dómari leiksins í dag var Ívar Orri Kjartansson. Aðstoðardómarar hans voru Eysteinn Hrafnkelsson (AD1) og Guðmundur Ingi Bjarnason (AD2).

Í fyrri hálfleik notaði Ívar Orri, dómari leiksins flautuna takmarkað og voru menn misánægðir með það.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira