Erlent

Flug­þjónar Air Canada bjóða yfir­völdum birginn

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Flugþjónarnir láta engan bilbug á sér finna og krefjast þess að fá greitt fyrir unnin störf.
Flugþjónarnir láta engan bilbug á sér finna og krefjast þess að fá greitt fyrir unnin störf. Getty/Andrej Ivanov

Forsvarsmenn stéttarfélags flugþjóna Air Canada segja félagsmenn sína ekki munu snúa aftur til vinnu, þrátt fyrir fyrirskipanir yfirvalda þar að lútandi. Flugþjónarnir lögðu niður störf á laugardagsmorgun og um það bil 1.400 flugferðir voru felldar niður um helgina.

Starfsmennirnir, sem eru um 10 þúsund talsins, krefjast kjarabóta og ekki síst að fá greitt fyrir störf sín eftir lendingu og fyrir flugtak en eins og sakir standa fá þeir aðeins greitt frá því að hurðunum að vélinni er lokað og þar til þær eru opnaðar á ný.

Flugþjónarnir höfðu ekki verið í verkfalli í tólf klukkustundir þegar vinnumálaráðherrann Patty Hajdu fyrirskipaði sáttanefnd að leggja fram bindandi miðlunartillögu og binda enda á verkfallsaðgerðirnar.

Forsvarsmenn stéttarfélags opinberra starfsmanna gaf þá frá sér yfirlýsingu þar sem sagði að inngrip stjórnvalda bryti gegn stjórnarskrá landsins og gegn réttindum flugþjónanna. Sjötíu prósent þeirra væru konur og hundrað prósent væru krafin um vinnuframlag án greiðslu fyrir.

„Verkfallsaðgerðirnar halda áfram. Við krefjumst sanngjarns, umsamins samnings og að fá greitt fyrir allar unnar starfsstundir,“ sagði í yfirlýsingunni.

Air Canada er langstærsta flugfélagið í Kanada en það flýgur meðal annars til 65 landa. Fyrirtækið hefur átt í miklum vandræðum eftir að verkfallaaðgerðirnar hófust, enda um háannatíma að ræða. 

Farþegar í vandræðum hafa kvartað yfir því að ná ekki sambandi við fyrirtækið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×