Íslenski boltinn

Fyrir­liði Fylkis sleit krossband í sigrinum lang­þráða

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ragnar Bragi Sveinsson hefur leikið með Fylki nær allan sinn feril. Hér er hann í leik á móti Njarðvík í sumar.
Ragnar Bragi Sveinsson hefur leikið með Fylki nær allan sinn feril. Hér er hann í leik á móti Njarðvík í sumar. Vísir/ÓskarÓ

Fylkir vann langþráðan sigur á Keflavík, 4-0, í Lengjudeild karla í gær. Í morgun fengu Fylkismenn hins vegar vond tíðindi.

Fyrirliði Fylkis, Ragnar Bragi Sveinsson, fór meiddur af velli undir lok fyrri hálfleiks og í morgun kom í ljós að hann er með slitið krossband í hné. Hann verður því frá keppni næstu mánuðina.

Ragnar Bragi hefur leikið þrettán leiki fyrir Fylki í Lengjudeildinni í sumar. Liðið er á botni hennar, tveimur stigum frá öruggu sæti.

Sigur Fylkis á Keflavík í gær var fyrsti sigur liðsins undir stjórn Arnars Grétarssonar og fyrsti sigurinn síðan það vann Völsung á Húsavík, 1-4, 28. júní.

Öll neðstu þrjú lið Lengjudeildarinnar, Fylkir, Fjölnir og Leiknir, unnu sína leiki í gær. Leiknismenn eru með sextán stig, líkt og Selfyssingar, Fjölnismenn fimmtán og Fylkismenn fjórtán. Fjórum umferðum er ólokið.

Næsti leikur Fylkis er gegn Grindavík á útivelli á laugardaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×