Sport

Hóta að snið­ganga NFL leiki vegna karl­kyns klappstýra

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Klappstýrurnar Shiek og Conn virðast hafa stuðað marga stuðningsmenn Minnesota Vikings.
Klappstýrurnar Shiek og Conn virðast hafa stuðað marga stuðningsmenn Minnesota Vikings. Minnesota Vikings

NFL félagið Minnesota Vikings bauð upp á tvær karlkyns klappstýrur í síðasta heimaleik og það má með sanni segja að það hafi kallað á hörð viðbrögð hjá sumum.

Vikings stendur fast í fæturna þrátt fyrir mikla gagnrýni og segist ætla að standa með öllum sínum klappstýrum sama af hvaða kyni þær séu.

„Við styðjum allar okkar klappstýrur,“ sagði í yfirlýsingu frá félaginu.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem karlmenn koma fram sem klappstýrur en þeir Shiek og Conn vöktu talsverða athygli að þessu sinni.

New York Post segir að fjölmargir stuðningsmenn Minnesota Vikings hafi brugðist illa við. Sumir hafa látið heyra í sér og aðrir hafa hótað því hreinlega að sniðganga heimaleiki liðsins á meðan karlarnir tveir dansa með konunum.

„Þótt að sumir stuðningsmenn séu að sjá karlkyns klappstýrur í fyrsta sinn á Víkingsleik þá hafa karlkyns klappstýrur verið hluti að klappstýruliði Víkinganna áður. Karlar hafa líka oft komið við sögu hjá klappstýruliðum í bæði háskólaboltanum og í atvinnumannaboltanum,“ sagði í yfirlýsingu frá Minnesota Vikings.

Þar kemur líka fram að einn þriðji af liðunum í NFL séu með karlkyns klappstýrur.

„Allir sem koma að okkar klappstýruliði hafa mikla reynslu af dönsum og hafa öll gengið í gegnum sömu áheyrnarpróf. Einstaklingarnir eru metnir út frá hæfileikum sínum, ástríðu fyrir dansi og skuldbindingu við að bæta upplifun áhorfenda. Við styðjum allar okkar klappstýrur og erum stolt af því hvernig þau vinna sem sendiherrar okkar félags,“ sagði í yfirlýsingunni frá Víkingunum.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×