Erlent

Hafa aftur­kallað yfir 6.000 námsmannaleyfi

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Erlendir námsmenn geta átt von á því að verða sendir heim fyrir það eitt að taka þátt í mótmælum.
Erlendir námsmenn geta átt von á því að verða sendir heim fyrir það eitt að taka þátt í mótmælum. Getty/Universal Images Group/UCG/John Senter

Utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna segir yfirvöld hafa fellt niður landvistarleyfi yfir 6.000 erlendra námsmanna, þar af um 4.000 vegna meintra lögbrota.

Fox News greindi fyrst frá en meðal þeirra brota sem námsmennirnir eru sagðir hafa framið eru innbrot, líkamsárásir og akstur undir áhrifum.

Þá segir í svörum talsmanns utanríkisráðuneytisins að 200 til 300 námsmannaleyfi hafi verið afturkölluð vegna „stuðnings viðkomandi við hryðjuverkastarfsemi“. 

Þetta er ekki útskýrt nánar en hafa ber í huga að stjórnvöld hafa sakað námsmenn um stuðning við hryðjuverkastarfsemi með því einu að mæta á mótmæli til stuðnings íbúum Gasa.

Stjórnvöld vestanhafs greindu frá því í apríl síðastliðnum að umsækjendur um námsmannaleyfi mættu eiga von á því að samfélagsmiðlar þeirra yrðu skoðaðir, meðal annars til að leita að vísbendingum um gyðingaandúð, og þá var greint frá því í júní að gerð yrði krafa um að umsækjendur heimiluðu öllum aðgangi að síðum sínum.

Erlendum nemum hefur verið hótað um brottvísun eftir að hafa skrifað blaðagreinar eða færslur á samfélagsmiðla sem ganga í berhögg við afstöðu og stefnu stjórnvalda. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×