Erlent

Vill vísa Thun­berg frá Noregi fyrir mót­mæli gegn olíu­vinnslu

Kjartan Kjartansson skrifar
Greta Thunberg mundar gjallarhornið á mótmælum aðgerðasinna við norska olíuhreinsistöð í Mongstad.
Greta Thunberg mundar gjallarhornið á mótmælum aðgerðasinna við norska olíuhreinsistöð í Mongstad. Vísir/EPA

Fyrrverandi innflytjendamálaráðherra Noregs og leiðtogi Framfaraflokksins vill vísa Gretu Thunberg, sænska aðgerðasinnanum, úr landi vegna þess að hún tók þátt í mótmælum við norska olíuhreinsistöð. Forsætisráðherrann hafnar því.

Thunberg var í hópi um tvö hundruð manns á vegum róttæku aðgerðasamtakanna Útrýmingarbyltingarinnar (e. Extinction Rebellion) sem lokuðu vegum að olíuhreinsistöð í Mongstad í Noregi í gærmorgun. Mótmælin héldu áfram í dag en lögregla segir að þau hafi verið friðsamleg.

Krafa mótmælendanna er að norsk stjórnvöld leggi fram áætlanir um hvernig þau ætla að skipta út olíu. Noregur er eitt af helstu olíuframleiðsluríkjum heims.

Mótmælin falla illa í kramið hjá Sylvi Listhaug, leiðtoga hægrisinnaða Framfaraflokksins. Í hlaðvarpsviðtali á móti Jonas Gahr Støre, forsætisráðherra, lýsti hún Thunberg sem „sænskum glæpagengisfélaga“. Vísaði hún þar væntanlega til ofbeldisöldu í Svíþjóð vegna átaka skipulagðra glæpasamtaka.

„Mér finnst að það ætti að vísa henni úr landi,“ sagði Listhaug sem var eitt sinn ráðherra innflytjendamála í Noregi.

Støre sagðist ósammála því. Það væri lögreglunnar að greiða úr árgreiningi við mótmælendurna við olíuhreinsistöðina.

Þingkosningar fara fram í Noregi 8. september. Verkamannaflokkur Støre mælist stærstur í skoðanakönnunum og útlit er fyrir að samsteypustjórn hans haldi velli. Framfaraflokkur Listhaug mælist næststærstur í skoðanakönnunum með um fjórðungsfylgi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×